Íslenski boltinn

Þrjú íslensk lið hefja leik í Evrópukeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik ÍBV og St. Patrick's í fyrra.
Úr leik ÍBV og St. Patrick's í fyrra. Nordic Photos / Getty Images
FH, ÍBV og Þór spila öll sína fyrri leiki í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í kvöld. FH-ingar spila á heimavelli en lið ÍBV og Þórs eru bæði stödd í Dyflinni á Írlandi.

ÍBV mætir sama andstæðingi og liðið mætti í sömu keppni í fyrra, St. Patrick's. Þá höfðu Írarnir betur eftir 2-1 samanlagðan sigur og fá Eyjamenn því tækifæri til að hefna ófaranna nú.

Þór, sem spilar í 1. deildinni, mætir Bohemians í kvöld en Þórsarar komust í Evrópukeppnina með því að spila til úrslita í bikarkeppni karla á síðustu leiktíð. Þar tapaði liðið fyrir KR sem spilar nú í forkeppni Meistaradeildar Evrópu sem ríkjandi Íslandsmeistari.

FH-ingar mæta liði frá smáríkinu Liechtenstein, USV Eschen-Mauren. Fyrri leikurinn fer fram í Kaplakrika í kvöld og hefst klukkan 19.15. Fylgst verður með honum á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins í kvöld.

Leikir ÍBV og Þórs í Dyflinni hefjast báðir klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×