Lífið

Helgarmaturinn - Salatblað fullt matar

Mynd/CoverMedia
Vinsælasti fjölskyldurétturinn hjá Kríu, ritstjóra hjá Bókaútgáfunni SÖLKU

„Það er einn réttur sem er mjög vinsæll hjá fjölskyldunni en ­hingað til hefur hann ekki átt sér neitt nafn. En nú er tilefni til þess svo ég nefni hann hér með SALAT­BLAÐ, FULLT MATAR. Uppskriftin er einföld og rétturinn ljúffengur og hollur í þokkabót. Svo er líka skemmtilegt að borða hann og hægt að nota guðs­gafflana jafnt sem hina."

INNIHALD

Kjúklingur (yfirleitt kaupi ég hann bara tilbúinn en stundum steiki ég líka bringur, fer eftir því hvað ég ætla að vera myndarleg.)

5 gulrætur

1 gulrófa

1 paprika

1 kúrbítur (Zucchini)

sveppir og bara það grænmeti sem er til, mæli þó ekki með ­agúrku, hún er of vökvarík. Yfirleitt fer magnið af grænmeti eftir því hvað ég er með mikið kjúklingakjöt og það heppnast ­alltaf best að fara eftir áferðinni á blöndunni; hún ætti hvorki að vera of vökvakennd né of þurr.

iceberg-salathaus

plómusósa

AÐFERÐ

Fyrst set ég kjúklingakjötið í matvinnsluvél og tek það svo frá. Síðan tek ég allt grænmetið (nema iceberg-salatið) og það fer í matvinnsluvélina, sömu leið.

Ég set kjúklinginn saman við grænmetið og snöggsteiki á pönnu í lítilli olíu (helst wok-pönnu).

Því næst fletti ég blöðunum varlega af iceberg-salatinu og smyr hvert blað (og enga nísku hér) með plómusósu. Síðan skipti ég pönnusteiktu blöndunni niður á blöðin og vef þau saman. Það fer svo alveg eftir ­stemmningunni hvort við borðum þetta eins og „pylsu með öllu", eða notum hnífapör. Við erum plómusósu-aðdáendur svo oftar en ekki höfum við sósuna við höndina og bætum við eftir þörfum.



Verði ykkur að góðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×