Innlent

Um 40% vilja ekki gefa líffæri úr látnum aðstandanda

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Líffæraígræðsla.
Líffæraígræðsla.
Þótt rannsóknir bendi til þess að um 80-90% allra séu tilbúnir til þess að gefa úr sér líffæri við andlát, eru um 40% aðstandenda sem neita að gefa líffæri úr látnum aðstandanda. Þetta segir Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS. Sambandið hefur ýtt úr vör nýju kynningarátaki til þess að vekja athygli á mikilvægi líffæragjafar.

„Það hafa verið gerðar kannanir bæði hérlendis og erlendis sem sýna að 80-90% allra eru tilbúnir til þess að gefa úr sér líffæri. En það sem veldur okkur áhyggjum er að tíðni neitunar af hálfu aðstandenda er í kringum 40% í gegnum tíðina. Þótt einhverjar vísbendingar séu um að hún fari lækkandi þá er hún alltof há og þetta er að kosta okkur mannlíf á ári hverju," segir Guðmundur. Guðmundur segist vilja laga þetta misræmi með því að vilji einstaklingsins verði uppi á borðinu og aðstandendur ekki skildir eftir með þessa erfiðu ákvörðun.

Með átakinu vill SÍBS líka vekja athygli á þingsályktun sem Siv Friðleifsdóttir og fjölmargir aðrir þingmenn hafa lagt fram um ætlað samþykki við líffæragjafir. Það frumvarp gengur út á að samþykkið sé fyrir hendi nema að hinn látni hafi áður látið í ljós sérstaklega andstöðu.

Hér má sjá fésbókarsíðu SÍBS, þar sem fjallað er um líffæragjafir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×