Íslenski boltinn

Tvær 17 ára berjast við Hörpu um gullskóinn í Pepsi-deild kvenna í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen úr Þór/KA.
Sandra María Jessen úr Þór/KA. Mynd/Daníel
Lokaumferð Pepsi-deildar kvenna fer fram í dag. Þór/KA er þegar búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn en það verður barist um gullskóinn og þá kemur í ljós hvaða félag fylgir KR niður í 1. deildina.

Þrír leikmenn eiga mestan möguleika á því að fá gullskóinn í ár en það eru þær Sandra María Jessen úr Þór/KA, Elín Metta Jensen úr Val og Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni. Sandra María og Elín Metta eru aðeins 17 ára gamlar.

Sandra María er búin að skora mest eða 17 mörk og hún verður í sviðsljósinu á Fylkisvelli þar sem Þór/KA heimsækir Árbæjarkonur. Fylkir er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Elín Metta hefur skorað einu marki minna eða 16 mörk en hún spilar með Valsliðinu á móti Aftureldingu í Mosfellsbænum. Afturelding er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Harpa hefur skorað 15 mörk og mætir með Stjörnuliðinu á Selfoss þar sem Stjarnan þarf helst stórsigur til þess að tryggja sér annað sætið. Stjarnan og ÍBV eru jöfn en ÍBV er með eitt mark í forskot í markatölu.

Shaneka Jodian Gordon úr ÍBV hefur skorað 13 mörk og á því ekki mikla von á gullskónum en ÍBV fær botnlið KR í heimsókn út í Eyjar. Gordon gæti hinsvegar náð í skó því hún hefur leikið færri mínútur en allar þær sem eru fyrir ofan hana.

Elín Metta stendur líka betur að vígi en Sandra María þegar kemur að spiluðum mínútum og verður því ofar endi þær jafnar. Harpa hefur hinsvegar spilað meira en þær báðar og verður alltaf neðst skori hún jafnmikið og hinar.

Markahæstar í pepsi-deild kvenna:

1. Sandra María Jessen, Þór/KA - 17 mörk (17 leikir, 1508 mínútur)

2. Elín Metta Jensen, Val - 16 mörk (17 leikir, 1384 mínútur)

3. Harpa Þorsteinsdóttir, Stjörnunni - 15 mörk (17 leikir, 1520 mínútur)

4. Shaneka Jodian Gordon, ÍBV - 13 mörk (17 leikir, 1256 mínútur)

5. Katrín Ásbjörnsdóttir, Þór/KA - 12 mörk (16 leikir, 1244 mínútur)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×