Körfubolti

Keflavíkurkonur tóku við deildarbikarnum eftir léttan sigur á KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir lyfta bikarnum.
Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir lyfta bikarnum. Mynd/ÓskarÓ
Keflavík tók við deildarmeistarabikarnum í Iceland Express deild kvenna eftir léttan 33 stiga sigur á vængbrotnu liði KR, 73-40, í lokaumferð deildarinnar. Keflavík er deildarmeistari í ellefta sinn en liðið var orðið meistari fyrir leikinn.

KR lék án þriggja byrjunarliðsmanna sinna sem eru allir meiddir og hélt bara í við Keflavíkurkonur í fyrsta leikhlutanum. Keflavík var komið með 16 stiga forskot í hálfleik og sigurinn var aldrei í hættu eftir það.

Eboni Mangum var með 20 stig hjá Keflavík, Jaleesa Butler skoraði 17 stig og tók 16 fráköst hjá Keflavík og Birna Valgarðsdóttir skoraði 10 stig. Hafrún Hálfdánardóttir skoraði 11 stig fyrir KR.

Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir, fyrirliðar Keflavíkurliðsins, tóku við bikarnum í leikslok en Keflavíkurliðið van 21 af 28 leikjum sínum í vetur og endaði tveimur stigum á undan nágrönnunum sínum úr Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×