Lífið

Framhaldslíf ofbeldismyndbands

Myndband hljómsveitarinnar Moon við lagið My Husband The Corpse hefur flakkað um samskiptasíðuna Facebook undanfarnar vikur. Texti lagsins og myndbandið þykja skuggaleg enda er umfjöllunarefni þess heimilisofbeldi.

Snædís Snorradóttir er nemandi á tæknibraut við Kvikmyndaskóla Íslands og söngkona hljómsveitarinnar Moon. Hún segir myndbandið hafa verið skólaverkefni sem hún vann árið 2010. „Lagið varð til þannig að ég fékk sendan lagstúf og þegar ég hlustaði á hann kom yfir mig einhver andi. Ég settist við skriftir og kláraði textann á mjög stuttum tíma. Myndbandið tókum við svo upp 2010 og það var ákveðið að ég færi með aðalhlutverkið þó ég sé engin leikkona," útskýrir Snædís.

Einar Örn Kristjánsson og Snorri Páll Haraldsson eru ásamt Snædísi í hljómsveitinni og segir hún að þeim hafi þótt erfitt að vera vitni að tökunum á myndbandinu. „Þetta tók á alla. Ég fékk frábæran mótleikara sem fór mjög djúpt í karakterinn og þar sem hann sést toga í hárið á mér, er hann í alvöru að toga í hárið á mér. En lagið er svo dimmt að það var ekki hægt að gera annað en að fara alla leið í myndbandinu."

Snædísi segir myndbandið hafa dúkkað upp á Netinu reglulega frá árinu 2010 og segist hún ánægð með að myndbandið skuli enn lifa góðu lífi. „Mér finnst gaman að þetta skuli ekki gleymast því mér finnst umræðan um heimilisofbeldi oft falla í skuggann."

Hægt er að horfa á myndbandið hér fyrir ofan og á heimasíðu hljómsveitarinnar, enterthemoon.co. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.