Enski boltinn

Gylfi: Hefði verið gaman að ná þrennunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi og félagar fagna í dag.
Gylfi og félagar fagna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson var hetja dagsins hjá nýliðum Swansea í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á botnliði Wigan á útivelli.

Vísir heyrði í Gylfa þegar hann var nýkominn upp í rútu Swansea-liðsins og fram undan var fjögurra og hálfs tíma akstur heim.

„Jú, þetta var mjög gaman. Mikilvægt var að vinna leikinn til að sogast ekki niður í fallbaráttuna. Við vorum búnir að tapa tveimur í röð og því gott að vinna aftur," sagði Gylfi.

„Það var líka gott að skora þessi mörk. Það eykur sjálfstraustið og hjálpar til. Fyrst og fremst er það bara gott að fá að spila reglulega og örugglega í fyrsta sinn síðan ég fór til Hoffenheim sem það gerist af einverju viti."

Brendan Rodgers, stjóri Swansea, var þjálfari Reading þegar Gylfi fékk sitt fyrsta tækifæri þar og sló í gegn. Hann sótti svo Gylfa til Hoffenheim þegar hann fékk lítið að spila þar.

„Það hjálpar manni mikið að fá fullvissu frá þjálfaranum að maður muni spila hvern leik sama hvað. Þá getur maður farið inn á völlinn og spilað sinn leik, án þess að vera að hugsa um hvort maður fari á bekkinn í næsta leik sama hvað maður gerir."

„Ég er þakklátur þjálfaranum fyrir allt það sem hann hefur gert og það er vonandi að ég hafi náð að borga honum eitthvað til baka í dag með þessum mörkum," sagði Gylfi.

Swansea hefur verið þekkt fyrir að spila skemmtilegan og sókndjarfan fótbolta. Það hentar Gylfa vel en hann segir að það hafi reynst nokkuð erfitt að þessu sinni. „Völlurinn var erfiður. Þetta er rúgbývöllur og hann er eiginlega handónýtur. Það var erfitt að halda boltanum niðri."

Í stöðunni 2-0 fékk Nathan Dyer, félagi Gylfa, að líta beint rautt spjald fyrir tæklingu og var ákveðið að setja varnarmann inn á völlinn á kostnað Gylfa. „Við náðum að halda hreinu og vinna leikinn sem skiptir mestu. Það hefði auðvitað verið gaman að reyna að ná þrennunni en þetta var breyting sem þurfti að gera. Það var allt í lagi."

„Varnarmaðurinn sem kom inn á stóð sig bara vel og því ekki hægt að kvarta undan neinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×