Enski boltinn

Van Persie afgreiddi Liverpool í lygilegum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Liverpool tókst ekki að vinna sigur á Arsenal í dag þrátt fyrir að hafa fengið bæði vítaspyrnu og fullt af góðum marktækifærum. Robin van Persie nýtti hins vegar færin sín vel og Arsenal 2-1 sigur.

Van Persie skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og var það glæsilegt. Hann fékk háa sendingu Alex Song inn fyrir varnarlínu Liverpool og skoraði með viðstöðulausu skoti í nærhornið. Einkar laglegt mark.

En Liverpool var meira með boltann og spilaði lengstum betur. En boltinn vildi einfaldlega ekki inn. Meira að segja markið sem Liverpool skoraði var sjálfsmark varnarmannsins Laurent Koscielny. Hann stýrði knettinum í eigið mark þegar hann reyndi að komast í veg fyrir fyrirgjöf Jordan Henderson.

Þá var Liverpool búið að fá vítaspyrnu eftir að Wojciech Szczesny var dæmdur brotlegur fyrir að taka Luis Suarez niður í teignum. Szczesny varði spyrnu Dirk Kuyt sem náði reyndar frákastinu en aftur varði Szcesny vel.

Skömmu eftir markið komst Liverpool í aðra góða sókn. Henderson átti skot sem Szczesny varði vel en Suarez náði frákastinu og skaut í stöng.

Jöfnunarmark Arsenal kom svo algerlega gegn gangi leiksins. Bacary Sagna átti frábæra sendingu frá kantinum inn á teig og rataði knötturinn beint á Van Persie sem skallaði í netið. Jamie Carragher, varnarmaðurinn reyndi, gerði sig þar sekan um slæm mistök í dekkningunni á Van Persie.

Liverpool átti síðan annað skot í stöng áður en flautað var til leikhlés. Dirk Kuyt var þar að verki eftir fyrirgjöf Charlie Adam en aftur var lukkan á bandi gestanna frá Lundúnum, auk þess sem Szczesny átti frábæran leik í markinu.

Í upphafi seinni hálfleiks lentu þeir Mikel Arteta og Henderson í samstuði og þurfti að bera Arteta af velli. Hann hafði fengið þungt höfuðhögg og alvarlegan heilahristing.

Martin Kelly fékk svo algjört dauðafæri eftir að leikurinn hófst á ný. Hann fékk boltann fyrir opnu marki eftir sendingu Dirk Kuyt en hitti einfaldlega ekki knöttinn. Dæmigert fyrir leik Liverpool-manna.

Leikurinn virtist ætla að fjara út eftir þetta en þá kom Van Persie til sögunnar og tryggði sínum mönnum öll stigin þrjú. Þetta var fyrsta tap Liverpool á heimavelli og er liðið því enn í sjöunda sæti deildarinnar. Arsenal komst upp í fjórða sætið með sigrinum og er nú tíu stigum á undan Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×