Viðskipti innlent

Lántakar geti brugðist við sveiflum

Jón Finnbogason
Jón Finnbogason
Mikilvægt er að lántakar með óverðtryggð húsnæðislán geti brugðist við sveiflum í greiðslubyrði. Þá skiptir máli fyrir lántaka með verðtryggð lán að kaupmáttur lántaka og raunverð íbúðahúsnæðis haldist nokkurn veginn í hendur á lánstímabilinu.

Þetta var meðal þess sem fram kom á fundi Íslandsbanka og VÍB, eignastýringarþjónustu bankans, um óverðtryggða og verðtryggða vexti húsnæðislána og sparnaðar.

Á fundinum ræddi Jón Finnbogason, aðstoðarframkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, verðtryggð og óverðtryggð húsnæðislán.

Benti hann á að verðtryggð húsnæðislán hafa þann kost að greiðslubyrði þeirra er hlutfallslega létt í upphafi lánstímans sem getur hentað ákveðnum hópum, til dæmis ungu fólki. Þá er meiri stöðugleiki í greiðslubyrði en á móti þarf lántaki að sætta sig við hægari eignamyndun. Þá sagði hann enn fremur mikilvægt fyrir þá sem taka verðtryggð lán að kaupmáttur lántaka og raunverð íbúðahúsnæðis haldist nokkuð í hendur á lánstímabilinu.

Þá sagði hann þá sem taka óverðtryggð húsnæðislán njóta mun hraðari eignamyndunar en þurfa á móti að sætta sig við þyngri greiðslubyrði í upphafi og mögulegar sveiflur í greiðslubyrði. Lántakar með óverðtryggð lán þurfi því að geta brugðist við sveiflum í greiðslubyrði.

Myndband af fundinum í gær er aðgengilegt á vefsíðu VÍB.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×