Lífið

Vice teygir anga sína til Íslands

Daníel Ólafsson er nýr tengiliður lífstílstímaritsins Vice á Íslandi og fullyrðir að aukinn umfjöllun verði um Ísland í tímaritinu og á vefsíðunni.
Daníel Ólafsson er nýr tengiliður lífstílstímaritsins Vice á Íslandi og fullyrðir að aukinn umfjöllun verði um Ísland í tímaritinu og á vefsíðunni. Fréttablaðið/gva
„Ég skrifaði undir ráðningarsamning á servíettu í Stokkhólmi í febrúar," segir Daníel Ólafsson plötusnúður, viðskiptafræðinemi og nú tengiliður tímaritsins Vice á Íslandi.

Daníel var að dreifa nýjasta tölublaði tímaritsins á höfuðborgarsvæðinu er Fréttablaðið náði af honum tali en blaðið er ókeypis. Vice tímaritið er þekkt lífstílsrit og upprunalega frá Kanada. Tímaritið kemur út mánaðarlega í 29 löndum í heiminum. „Það eru nokkur ár síðan tímaritinu var dreift hér á landi en núna verður því dreift reglulega í Reykjavík. Ég er svokallaður tengiliður Vice á Íslandi en þetta er í fyrsta sinn sem þeir eru með svoleiðis," segir Daníel sem kynntist Michael Mohn, umsjónaraðila Vice á Norðurlöndunum, er hann spilaði í partýi sem tímaritið hélt í Stokkhólmi.

„Það má segja að ég hafi verið ráðinn á staðnum. Síðan þá hef ég farið tvisvar til Stokkhólms til að funda og spila á viðburðum en Vice eru þekktir fyrir að kunna halda góð partý. Í síðasta partýi tróð til dæmis sænska söngkonan Robyn upp."

Daníel og Mohn voru saman að vinna á vegum Vice á Íslandi um helgina þar sem þeir fjölluðu um Reykjavík Fashion Festival. Mohn er mjög hrifinn af Íslandi. „Hann elskar Ísland og íhugar að kaupa sér húsnæði hérna í nánustu framtíð."

Vice er allsherjar margmiðlunarfyritæki með prentútgáfu, vefsíðuna Vice.com og nýstofnaða sjónvarpsstöð og þekkt fyrir umdeildar myndbirtingar. Daníel á von á því með ráðningu hans komi umfjöllun um Ísland að aukast í blaðinu og á heimasíðunni. „Ég er með nokkur verkefni í vinnslu en tek öllum hugmyndum fagnandi. Tímaritið býður upp á marga möguleika og er mjög framarlega í tækninni." -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.