Lífið

Hollywood sýnir Frost áhuga

Spennutryllirinn er strax farinn að vekja athygli í Hollywood.
Spennutryllirinn er strax farinn að vekja athygli í Hollywood.
Hollywood-fyrirtækið XYZ Films hefur sýnt áhuga á að endurgera íslenska spennutryllinn Frost fyrir bandarískan markað. Glæný þrjátíu sekúnda stiklu úr myndinni virðist hafa heillað fyrirtækið upp úr skónum.

„Þetta er allt á byrjunarstigi," segir framleiðandinn Júlíus Kemp, sem viðurkennir að þetta hafi gerst furðu hratt. „En samt, allt varðandi þessa mynd hefur gerst mjög hratt. Við seldum alheimsréttinn til Trustnordisk. Við sýndum þeim þrjár senur úr myndinni og það dugði til að skrifa undir samninginn," segir Júlíus, sem er óvanur slíkum áhuga á íslenskri mynd. „Menn hafa einhvern veginn stokkið á þetta einn, tveir og þrír. Þessi áhugi er líka kominn til vegna þess að þetta er mjög óvenjulegt verkefni og myndefni sem við erum að sýna," segir hann en Frost var að stórum hluta tekin uppi á Langjökli.

Fyrirtækið XYZ framleiddi myndina The Raid sem vann áhorfendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Sony Pictures er að endurgera hana og hefjast tökur í sumar. Fyrirtækið er einnig að vinna mynd með Darren Aronofsky, leikstjóra Black Swan. „Þetta er nýtt fyrirtæki en aðalnáunginn þarna hefur mikla reynslu af frekar stórum myndum," segir Júlíus og heldur áfram: „Það er mikill hiti úti í heimi fyrir öllu sem kemur frá Norður-Evrópu. Það virðist annar hver sjónvarpsþáttur eða bíómynd sem gengur vel hafa verið keypt með góðum árangri."

Frost verður frumsýnd hérlendis um miðjan september og er eftirvinnslan í fullum gangi.-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.