Lífið

Þjappaði fjölskyldunni saman

Systkin Indíana og Gísli Matthías Auðunsbörn reka veitingastaðinn Slippinn í Vestmannaeyjum ásamt foreldrum sínum.
Systkin Indíana og Gísli Matthías Auðunsbörn reka veitingastaðinn Slippinn í Vestmannaeyjum ásamt foreldrum sínum.
Veitingastaðurinn Slippurinn opnaði við höfnina í Vestmannaeyjum á föstudaginn síðasta. Staðurinn er fjölskyldurekinn og að sögn Indíönu Auðunsdóttur, framkvæmdastjóra Slippsins, hefur reksturinn gert fjölskylduna samheldnari en áður.

Að sögn Indíönu ákvað fjölskyldan að láta gamlan draum rætast þegar svonefnt Magnahús í Eyjum bauðst þeim til afnota. Húsið hýsti eitt sinn vélsmiðju en hefur verið nýtt sem geymsla fyrir veiðarfæri síðustu þrjá áratugi.

„Við reyndum að endurnýta sem mest af þeim efnivið sem hér var og smíðuðum þannig borðin úr gömlum bátsfjölum og gólfin okkar voru áður fjalir úr gamalli netagerð hér í Eyjum,“ útskýrir Indíana, sem rekur staðinn ásamt bróður sínum, Gísla Matthíasi kokki, móður sinni, Katrínu Gísladóttur, og föður sínum, Auðuni Stefnissyni sjómanni.

Veitingastaðurinn hefur verið fullbókaður frá því hann opnaði og viðurkennir Indíana að viðtökurnar hafi komið fjölskyldunni skemmtilega á óvart. Þegar hún er innt eftir því hvort það sé erfitt að vinna svo náið með fjölskyldu sinni er Indíana fljót til svars: „Nei, alls ekki. Þetta hefur bara þjappað okkur betur saman og samstarf okkar er gott. Við skiptum verkum á milli okkar þannig að hver og einn er með sitt sérsvið og það hefur gengið vel. Það þýðir ekkert annað en að vera samheldin og samstiga í þessu.“

Veitingahúsið verður rekið í allt sumar og fram á haust en þá munu fjölskyldumeðlimirnir snúa sér að öðrum verkum. Indíana er menntaður myndlistarmaður og starfar hjá Nýló en Gísli Matthías hyggst leggja land undir fót og viða að sér meiri þekkingu í kokkafaginu. Foreldrar þeirra systkina munu þó dvelja áfram í Vestmannaeyjum og reka Slippinn sem veislusal fram að næsta sumri. „Veitingastaðurinn verður opnaður aftur næsta sumar og þá komum við Gísli til baka. Þetta verður svolítið eins og að fara á vertíð í Eyjum,“ segir Indíana að lokum og hlær.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.