Viðskipti erlent

Beðið eftir samþykki bankanna

Tilþrif á þingi Evangelos Venizelos fjármálaráðherra sannfærir þingmenn um nauðsyn skuldbreytingarinnar.
nordicphotos/AFP
Tilþrif á þingi Evangelos Venizelos fjármálaráðherra sannfærir þingmenn um nauðsyn skuldbreytingarinnar. nordicphotos/AFP
Grísk stjórnvöld hafa samþykkt áætlun um skuldbreytingu, sem felur í sér að fjármálafyrirtæki felli niður 53,5 prósent af skuldum gríska ríkisins.

Gríska stjórnin lagði blessun sína yfir þessi áform í gær, daginn eftir að gríska þingið samþykkti þau. Enn er þó óvíst hvort öll fjármálafyrirtækin fallast á niðurfellinguna, sem vegna lágra vaxta felur líklega í sér að þau tapi allt að 70 prósentum af því sem Grikkir skulda þeim.

Vogunarsjóðir, sem krefjast þess sumir enn að Grikkir greiði skuldir sínar að fullu, gætu þó neyðst til að fallast á þessar sameiginlegu ráðstafanir.

Skuldbreytingin er forsenda þess að leiðtogaráð Evrópusambandsins leggi blessun sína yfir 130 milljarða fjárhagsaðstoð til Grikkja, sem fjármálaráðherrar evruríkjanna samþykktu nú í vikunni.

Gegn þessu hafa grísk stjórnvöld einnig samþykkt enn harðari aðhaldsaðgerðir, sem mætt hafa mikilli andstöðu verkalýðsfélaga og almennings í Grikklandi.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×