Innlent

Fatlaðir fá að velja aðstoðarfólk

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælir í vikunni fyrir lagabreytingu sem gerir fötluðum kleift að velja sér aðstoðarfólk við kosningar. Hann segir að grundvallarreglan verði sú að kjörstjórnir aðstoði þá sem ekki geta kosið, en ef fatlaður einstaklingur vilji sjálfur velja sér aðstoðarmann sé honum það heimilt.

„Gert er ráð fyrir að viðkomandi upplýsi kjörstjórnina um óskir sínar hvað þetta snertir einn og án viðveru nokkurs annars. Að því búnu fær aðstoðarmaður hans að koma með honum í kjörklefann."

Ögmundur segir að geti viðkomandi ekki tjáð sig sjálfur um ósk sína fái hann aðstoð umboðsmanns fatlaðra við að gefa út skriflega yfirlýsingu um vilja sinn.

„Það er einstaklingurinn sem hefur endanlegt val og þegar hann kemur ósk sinni á framfæri er hann einn og enginn með honum. Það er gert til að gæta að því að hann verði ekki fyrir neinum þrýstingi, en valið er algjörlega hans."

Ögmundur segir frumvarpið unnið í góðri sátt við Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) og Blindrafélagið. ÖBÍ kærði framkvæmd forsetakosninganna í sumar, þar sem fatlaðir fengu ekki að velja sér aðstoðarmann, en Hæstiréttur hafnaði kærunni.

„Ég vona að frumvarpið fái skjóta afgreiðslu þingsins svo hægt sé að nýta lögin við kosningar um stjórnarskrá sem fram fara 20. október," segir Ögmundur.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×