Innlent

Felli þingið rammasamning lendir styrkjakostnaður á skattgreiðendum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að ef þingið samþykki ekki IPA-fjárstyrki frá Evrópusambandinu til verkefna innanlands greiðist kostnaður vegna þeirra úr ríkissjóði.

Ísland á rétt á tvenns konar styrkjum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Annars vegar er um að ræða svokallaða TAIEX-styrki, sem fela í sér sérfræðiaðstoð frá embættismönnum ESB og hins vegar beina fjárstyrki sem eiga að aðstoða íslenska ríkið og gera það í stakk búið til að ganga inn í sambandið þegar þar að kemur, ef þjóðin samþykkir aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Gert er ráð fyrir að IPA-styrkir til Íslands geti numið allt að 30 milljónum evra, sem svarar til um 5 milljarða króna, vegna tímabilsins 2011-2013.

Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir styrkjum upp á 596 milljónir króna frá Evrópusambandinu fyrir afmörkuð verkefni. Gerð er krafa um að IPA-aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja en verkefni vegna styrkjanna eru boðin út á EES-svæðinu. Alþingi þarf hins vegar að samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um rammasamning milli ríkisstjórnarinnar og framkvæmdastjórnar ESB ef afgreiða á styrkina.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, spurði utanríkisráðherra í dag hvað yrði um þá styrki sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ef svo færi að þingið felldi tillögu vegna þeirra.

„Ef þessi rammasamningur yrði felldur, við héldum að sjálfsögðu áfram með umsóknina, þá þyrfti að leggja til fé til að standa straum af ákveðnum breytingum eins og háttvirtur þingmaður veit. Við undirbúning nýrrar tollskrár, hugsanlega skattkerfishugbúnaði. Þá er það rétt hjá háttvirtum þingmanni að það myndi lenda á íslenskum skattgreiðendum," sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á Alþingi. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×