Enski boltinn

Leikmenn Chelsea héldu teiti og kvöddu Anelka

Margir leikmanna Chelsea eru hundfúlir með meðferðina sem Nicolas Anelka hefur fengið í kjölfar þess að hann lýsti því yfir að vilja fara frá félaginu.

Anelka var umsvifalaust hent í frystikistuna. Hann fékk ekki að æfa með aðalliðinu og fékk ekki einu sinni að leggja á bílastæði aðalliðsins. Þess utan fékk Frakkinn ekki einu sinni að mæta í jólagleði félagsins.

Leikmenn Chelsea tóku málin í sínar eigin hendur og héldu sína eigin gleði með Anelka síðasta föstudag þar sem þeir kvöddu leikmanninn en hann er nú farinn til Kína þar sem hann mun spila með Shanghai Shenhua.

Hinn ungi stjóri félagsins, Andre Villas-Boas, er augljóslega í vandræðum með að ná tökum á búningsklefanum og þessi aðgerð sýnir klárlega að margir leikmanna liðsins bera ekki næga virðingu fyrir stjóranum.

Gengi liðsins hefur heldur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir og pressan á stjóranum unga magnast því eftir sem líður á tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×