Enski boltinn

Aron Einar skoraði og Cardiff vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Aron Einar Gunnarsson skoraði eitt marka Cardiff í 3-1 sigri á Reading í ensku b-deildinni í dag. Þetta var annar sigur Cardiff-liðsins á þremur dögum og liðið komst fyrir vikið upp í 3. sæti deildarinnar.

Mark Arons Einars kom á 19. mínútu leiksins en það gerði hann með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Peter Whittingham. Joe Mason skoraði fyrsta markið á 13. mínútu og Aron Einar kom því Cardiff í 2-0 sex mínútum síðar.

Kenny Miller skoraði síðan þriðja markið á 36. mínútu og Cardiff var í frábærum málum. Peter Whittingham lagði einnig upp það mark. Jobi McAnuff minnkaði muninn á lokamínútu fyrri hálfleiksins en ekkert mark var síðan skorað í seinni hálfleik.

Aron Einar hefur þar með skorað 5 mörk í 20 deildarleikjum fyrir Cardiff-liðið á þessu tímabili en þetta var þriðji leikur hans í röð þar sem að hann á þátt í marki síns liðs.

Ívar Ingimarsson lék allan leikinn með Ipswich sem tapaði 1-3 á heimavelli á móti Nottingham Forest. Ipswich er í 19. sæti deildarinnar aðeins þremur stigum frá fallsæti.

Hermann Hreiðarsson sat allan tímann á varamannabekknum þegar Portsmouth vann 2-0 heimasigur á Watford en Portsmouth komst upp í 17. sætið með þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×