Enski boltinn

Eggert Gunnþór: Væri gaman að fá sénsinn gegn Chelsea í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða Wolves
Eggert Gunnþór Jónsson fær tækifæri í dag til að þreyta frumraun sína með Wolves í ensku úrvalsdeildinni en hann gekk formlega til liðs við félagið þegar opnað var fyrir félagaskipti nú um áramótin.

Eggert kom frá skoska liðinu Hearts þar sem hann hefur verið frá sextán ára aldri. Eggert verður í leikmannahópi Wolves í dag en óvíst er hvort hann fer beint í byrjunarlið Úlfanna strax í fyrsta leik.

„Það verður bara að koma í ljós, ég er allavega í hópnum og býst fastlega við að vera á skýrslu," sagði Eggert við Fréttablaðið í gær. „Ég byrjaði að æfa 27. desember og hef því ekki fengið margar æfingar með liðinu. Það er líka búið að vera mikið leikjaálag og því hafa æfingarnar verið nokkuð léttar," sagði Eggert. „En það væri auðvitað gaman að fá séns."

Honum líkar vel við vistina enn sem komið er og hlakkar til að fá að spreyta sig í ensku úrvalsdeildinni. „Mér líst vel á þetta allt saman og spennandi tímar fram undan. Mér finnst ég vera tilbúinn fyrir þessa deild og það væri ekki ónýtt að fá að spila gegn liði eins og Chelsea strax í fyrsta leik. Ég geri mér samt grein fyrir því að tekur tíma til að venjast nýjum aðstæðum og nýju liði en vonandi tekst mér að festa mig í sessi hér."

Greint var frá því um helgina að miðjumaðurinn Emmanuel Frimpong hjá Arsenal hafi verið lánaður til Wolves til loka tímabilsins. Eggert fagnar komu hans. „Það lá fyrir að það þyrfti að styrkja miðjuna hjá liðinu og því er þetta bara hið besta mál. Þetta er góður leikmaður og verður spennandi að fylgjast með honum."

Wolves er sem stendur í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sautján stig og hefur ekki unnið leik síðan liðið hafði betur gegn Sunderland, 2-1, í byrjun desember. Liðið hefur þó gert jafntefli í síðustu þremur leikjum sínum í deildinni.

Leikur Wolves og Chelsea fer fram klukkan 15.00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×