Enski boltinn

Warnock: Held bara að línuvörðurinn hafi giskað á hvað gerðist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neil Warnock, knattspyrnustjóri Queens Park Rangers.
Neil Warnock, knattspyrnustjóri Queens Park Rangers. Mynd/Nordic Photos/Getty
Neil Warnock, knattspyrnustjóri Heiðars Helgusonar og félaga í Queens Park Rangers var ekki sáttur með umdeilda ákvörðun dómarans í 1-2 tapi á móti Norwich í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Neil Swarbrick, dómari leiksins, rak Joey Barton útaf með beint rautt spjald á 36. mínútu en QPR-liðið var þá 1-0 yfir þökk sé marki Barton á 11. mínútu.

„Línuvörðurinn sá hann skalla Bradley Johnson og þeir sjá víst það sem þeir sjá. Ef ég á að vera hreinskilinn þá held ég bara að hann hafi giskað á hvað gerðist. Hver segir að þeir sem svindla uppskeri ekki?," sagði Neil Warnock.

„Þeir voru með haus í haus. Joey hefði aldrei látið sig falla en það kemur ekki mikið á óvart að Bradley lét sig falla. Þetta breytti algjörlega leiknum," sagði Warnock.

„Okkur var síðan refsað fyrir þetta og eru skiljanlega ósáttir. Ég tel að við eigum skilið að vera í 10. eða 11. sæti miðað við tækifærin sem við höfum skapað. Við verðum samt að vera jákvæðir, þurfum bara að klára þessa leiki og vera aðeins heppnari með ákvarðanir dómaranna," sagði Warnock en QPR situr nú í síðasta örugga sætinu aðeins tveimur stigum á undan liðinu í þriðja neðsta sæti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×