Enski boltinn

Bobby Zamora tryggði Fulham sigurinn í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fulham skoraði tvö mörk á lokamínútum á móti tíu mönnum Arsenal og tryggði sér 2-1 sigur á Craven Cottage í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea náði þar með fjórða sætinu af Arsenal eftir leiki dagsins.

Arsenal var með forystuna í 64 mínútur og spilaði flottan fótbolta í fyrri hálfleiknum. Fulham tók við sér í seinni hálfleiknum en mörkin komu ekki fyrr en að Arsenal hafði misst mann af velli.

Laurent Koscielny kom Arsenal í 1-0 á 21. mínútu þegar hann skallaði boltann í markið eftir að fyrirgjöf Aaron Ramsey hafði haft viðkomu í varnarmanni.

Johan Djourou fékk sitt annað gula spjald á 78. mínútu fyrir brot á Bobby Zamora og Arsenal-liðið lék því manni færra síðustu tólf mínútur leiksins.

Fulham nýtti sér það og Steve Sidwell jafnaði leikinn á 85. mínútu eftir klaufagang markvarðarins Wojciech Szczesny í hornspyrnu. Szczesny náði ekki fyrirgjöfinni og Philippe Senderos skallaði boltann til baka á Sidwell sem skallaði hann inn af stuttu færi.

Bobby Zamora skoraði síðan sigurmarkið í uppbótartíma eftir að Sébastien Squillaci mistókst að skalla boltann almennilega frá. Þetta var fyrsta mark Bobby Zamora í deildinni síðan í októberbyrjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×