Enski boltinn

Wenger: Vitum vel að við fáum ekki víti og rauða spjaldið var grín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johan Djourou mótmælir rauða spjaldinu sínu.
Johan Djourou mótmælir rauða spjaldinu sínu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var allt annað en sáttur eftir 1-2 tap á móti Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag en Arsenal var 1-0 yfir þegar aðeins sex mínútur voru eftir af leiknum.

„Við klúðruðum mörgum góðum færum og svo voru þetta nokkrar slæmar ákvarðanir hjá dómaranum. Það tvennt réði úrslitunum í dag," sagði Arsene Wenger. Arsenal lék manni færra eftir að Johan Djourou fékk sitt annað gula spjald á 78. mínútu.

„Rauða spjaldið var grín. Þeir reyndu að veiða Djourou eftir að hann fékk fyrra gula spjaldið sitt og dómarinn var það auðtrúa að hann gekk í gildruna. Við áttum að fá aukaspyrnuna þarna en ekki þeir," sagði Wenger.

Wenger vildi fá víti þegar Philippe Senderos virtist brjóta á Gervinho. „Þetta var 200 prósent víti en við vitum vel að við fáum ekki víti. Þannig var það á móti QPR og svo gerðist þetta aftur í dag," sagði Wenger.

„Það er óheppilegt að tapa svona leik því leikurinn átti að vera búinn í hálfleik. Við vorum óheppnir og dómarinn hafði mikil áhrif á úrslit leiksins," sagði Wenger ósáttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×