Innlent

Réttargæslumaður á erfitt með að horfa á Guðgeir

Guðgeir þegar hann var leiddur fyrir dómara í mars.
Guðgeir þegar hann var leiddur fyrir dómara í mars.
„Það er mjög skrýtið, það er erfitt að horfa á hann," segir Brynjar Níelsson lögmaður og réttargæslumaður Skúla Eggerts Sigurz, en þeir eru ennfremur góðir vinir. Þá störfuðu þeir saman á lögfræðistofunni Lagastoðum, þar sem Guðgeir Guðmundsson stakk Skúla fimm sinnum.

Brynjar gætir hagsmuna Skúla í réttarsalnum og þarf að sitja gegnt honum í málinu. Brynjar, sem er ýmsu vanur úr réttarsölum landsins, segir það skrýtið að sitja á móti Guðgeiri og erfitt að horfa til hans þegar hann er spurður hvernig það sé að sitja í réttarhöld yfir manni sem skaðaði vin hans svo alvarlega. Þannig mátti sjá Brynjar fletta tímariti í þingfestingu málsins í stað þess að fylgjast með viðbrögðum Guðgeirs, sem játaði í dag að hafa stungið Skúla, þó svo hann gangist ekki fyllilega við því að hafa ætlað að bana honum.

Þegar Brynjar er spurður hvað honum finnist um þá afstöðu Guðgeirs svarar hann: „Það er enginn óvissa um það að hann ætlaði að drepa hann. Það er í raun röð tilviljana sem varð til þess að Skúli lifði árásina af."

Þannig kom fram í ákæruskjali að Skúli missti 50 lítra af blóði eftir árásina. Brynjar segir að í slíkum tilfellum sé algengast að hjartað í viðkomandi stoppar. „Það sem bjargaði honum var að hann komst fljótt undir læknishendur," segir Brynjar sem bætir við að það hafi ekki vantað nema örfáa sentimetra að ein hnífstungan hefði náð inn að hjarta.

Skúli er enn illa farinn eftir árásina. Það er langt í að hann geti farið að vinna aftur og ýmis óþægindi hrjá hann. „Svo varð bakslag á dögunum," segir Brynjar en Skúli hafði verið útskrifaður af spítala fyrir nokkrum vikum. Síðan þurfti að leggja hann aftur inn, en hann útskrifaðist svo aftur í gær. Það er því ljóst að það er langur vegur að fullum bata fyrir Skúla þrátt fyrir að tæplega þrír mánuðir séu liðnir frá árásinni.

„Maður verður bara að gæta sín á því að festast ekki í sorginni," segir Brynjar og bætir við: „Þetta er bara ein af þessum tragedíum sem lífið býður upp á."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×