Enski boltinn

Mancini: Mistök hjá City að sleppa Sturridge

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segir að það hafi verið furðuleg ákvörðun að leyfa Daniel Sturridge að fara til Chelsea árið 2009.

Sturridge er uppalinn leikmaður hjá city en hefur slegið í gegn hjá Chelsea. Hann hefur skorað níu mörk í 20 leikjum á tímabililnu og hefur verið valinn í enska landsliðið.

Samningur hans við City rann út árið 2009 og þá gekk hann til liðs við Chelsea. Forráðamenn City á þeim tíma voru ekki reiðubúnir að mæta launakröfum hans en hann mun hafa farið fram á 65 þúsund pund í vikulaun.

„Þegar hann var í láni hjá Bolton í fyrra spurði ég hann af hverju hann fór. Hann sagðist ekki vita það," sagði Mancini. „Ég hefði viljað halda honum. En hann er hjá Chelsea og við getum ekkert gert."

„Ég veit að hann þótti einn besti ungi leikmaður félagsins þegar hann var hér. Það var augljóst að Sturridge myndi verða mjög öflugur leikmaður. Það er furðulegt að hann hafi byrjað hér í Manchester en að einhver hafi leyft honum að fara."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×