Enski boltinn

Ancelotti: Villas-Boas er góður þjálfari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Villas-Boas stýrir æfingu hjá Chelsea.
Villas-Boas stýrir æfingu hjá Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Þó svo að Roman Abramovich hafi ekki gefið Andre Villas-Boas opinbera stuðningsyfirlýsingu er Carlo Ancelotti, forveri Villas-Boas hjá Chelsea, ánægður með þjálfarann unga.

Ancelotti stýrir í dag Paris Saint-Germain og var í viðtali hjá CNN-sjónvarpsstöðinni. Hann var spurður um tímabilið hjá Chelsea og stöðu Villas-Boas sem þykir valtur í sessi.

„Ég held að vandamálið hjá Chelsea sé að hann hafi reynt að breyta einhverju. Hann vildi fá yngra lið og gaf því yngri leikmönnum tækifæri. Um leið gaf hann mikilvægustu leikmönnum liðsins - Frank Lampard, John Terry og Ashley Cole - færri leiki."

„En ég held að breytingar eins og þessar þurfi lengri tíma. Það er mjög erfitt að fylla í skörð leikmanna eins og þessara. Villas-Boas er góður þjálfari og stóð sig mjög vel hjá Porto. Þeir reyndu bara að breyta einhverju en það tekur langan tíma að ná slíkum breytingum í gegn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×