Skoðun

Spennufíklar í sæstrengsspreng

Jón Helgi og Rúnar Þórarinssynir skrifar
Orkunýlendan Ísland

Fyrir rúmum tveimur áratugum var byggt vatnsraforkuver á S-Grænlandi m.a. með túrbínum framleiddum á Ystafelli í Mývatnssveit. Orkuverið virtist hagkvæmt og lyftistöng fyrir byggðalagið. Eins og með alla framleiðslu í Grænlandi á þeim tíma þurftu eigendurnir að borga 15% af framleiðslugjaldinu í nýlenduskatt til danska ríkisins. Fimmtán krónur af hverjum 100 virtist ekki svo slæmt, stíflan var byggð og tekin í notkun. Svo kom að því að greiða rafmagnið. Eigendurnir innheimtu 15% af framleiðslukostnaðinum og sendu skilvíslega til danskra yfirvalda, en þá kom babb í bátinn. Danskurinn meinti að miða ætti prósentin fimmtán við framleiðsluverð raforku í kolaveri á Jótlandi og þar með áttu íbúar svæðisins sem höfðu kostað byggingu vatnsorkuversins, að borga 200 krónur í nýlenduskatt af hverjum 100 kr. sem kostaði að framleiða rafmagnið í verinu steinsnar frá.

Nú stendur Ísland frammi fyrir svipuðum aðstæðum nema hvað þær eru margfalt verri en aftur ekki jafn gegnsæjar almenningi. Lengi hafa íslenskir raforkuframleiðendur vart haldið vatni yfir þeirri hugmynd að leggja sæstreng til Evrópu og selja auðlindina sem hrávöru til neytenda þar. En þessir draumar sæstrengsdrengjanna mun leiða til þess að raforkuverð til almennra neytenda hér verður u.þ.b. einum eyri lægri en það sem framleitt er í óhagstæðasta raforkuveri norður Evrópu.

Afvegaleiðing


Hugmyndirnar um sæstreng hafa nýlega fengið byr undir báða vængi og kynnti Landsvirkjun þá niðurstöðu að svo þetta fyrirtæki bæri sig þyrfti það 100 til 200 MW virkjanir í viðbót á bakvið sig. En þá væri líka hægt að flytja rafmagnið fram og svo aftur til baka ef nægilega hátt verð fengist ekki og nota það til að dæla vatninu aftur upp í lónin okkar til varðveislu. Landsvirkjun ku hafa loks fundið upp Eilífðarvél!

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar komst svona að orði í fréttum RÚV í nóvember s.l. og var með ólíkindum að hlýða á. Svona útúrsnúningar eru jafnan til þess gerðir að slá ryki í augu fólks, tálbeita sem stýrir umræðunni frá því sem ekki má koma fram.

Hvað er í raun í gangi?


Almenningur á Íslandi, eigandi Landsvirkjunar, þarf að vita á hvaða markaði raforkan er seld um sæstrenginn. Hún væri að fara inn á eitt allsherjar raforkumarkaðsnet þar sem boðið er í raforku á klukkutímagrundvelli. Uppboðsaðilinn kallast Nord Pool Spot (www.nordpoolspot.com) en netið á uppruna sinn á norðurlöndunum. Á svæðinu bjóða allir gegn öllum í sama rafmagnið og verðmyndunin á sér stað samstundis á öllu svæðinu í einu. Það hljómar eins og blautur draumur kapítalistans. Löndin í Evrópu hafa verið að bætast í þennan hóp, Eistland, Lettland, Þýskaland og Stóra-Bretland eru inni og Nord Pool Spot stefnir á sölu í allri Norður-Evrópu.

Meðal heildsöluverð raforku NordPoolSpot í Skandinavíu frá uðpphafi (€/MWst). Erfitt hefur reynst að fá sambærilegar tölur á Íslandi, en heildsöluverð til almennra notenda virðist sveiflast frá 15 til 20 € á meðan verð til stóriðju er um þriðjungur af því.
Meðal heildsöluverð raforku NordPoolSpot í Skandinavíu frá uðpphafi (€/MWst). Erfitt hefur reynst að fá sambærilegar tölur á Íslandi, en heildsöluverð til almennra notenda virðist sveiflast frá 15 til 20 € á meðan verð til stóriðju er um þriðjungur af því.

Síðasti íslenski tómaturinn


Hvað mundi þetta þýða fyrir orkuframleiðslufyrirtæki hérlendis? Öll raforka sem framleidd er fyrir almennan markað, ef frá er talin stóriðjan sem samið hefur áratugi fram í tímann, yrði skráð á Nord Pool Spot markaðinn. Frá því að markaðnum var komið á í Skandinavíu 1999 hefur raforkuverð þar allt að fimmfaldast eins og gjarnan vil gerast í kjölfar einkavæðingar á almenningsþjónustu og hækkað í takt við það þegar ný lönd bætast við netið. Það helgast af því að kokkurinn sem sýður egg á eldavélinni sinni norður í Tromsö er að keppa um sama rafmagnið og fer í flóðljósin sem lýsa upp Buckinghamhöll í Lundúnum. Staðreyndin er sú að raforkureikningur grænmetisbóndans í Hveragerði mun margfaldast daginn eftir að kaplinum góða verður stungið í samband. Það gefur auga leið að þetta eru endalok íslenkrar ylræktar sem og annars orkufreks atvinnureksturs og ætli fólk mundi ekki sjóða færri egg í Breiðholtinu fyrir vikið.

Daginn sem þetta er ritað fór dýrasta megawattstundin yfir 300 evrur á Nord Pool Spot (4. des. 2012 kl. 7-8 um morguninn í Finnlandi) á meðan verðið hér var ca. 10-15 evrur eins og venjulega (meðalverð mánaðarins skv. Landsvirkjun).

En græða ekki allir?


Allir neytendur á Íslandi mundu tapa stórfé til orkufyrirtækjanna en þá gætu einhverjir spurt: „Er það ekki bara ágætt fyrir okkur sem eigum orkufyrirtækin?" Spurningin er auðvitað galin, en henni þarf að svara. Í fyrsta lagi þá telja flestir að hvers manns peningum sé best komið í hans eigin vasa en ekki á ráðstöfunarreikningi stjórnenda Landsvirkjunar eða OR. Í öðru lagi er eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum og auðvitað hagnaðinum af þeim ekki tryggt sem stendur. Gleymum hvorki veiðigjaldadeilunum sem snúast um hagnaðinn einan af sjávarauðlindinni né því þegar ríkisbankarnir voru nánast gefnir vinum og kunningjum né því þegar sömu bankarnir voru seldir á brunaútsölu eftir hrun. Hætt er við að valdhafar komi hagnaði orkufyrirtækjanna í einkavasa en láti þjóðina bera kostnaðinn og ábyrgðina af uppbyggingunni einu sinni enn. Það virðist vera nokkuð sama hvaða afturendar verma stóla Alþingis, þetta fer ætíð í sama farið.

Raforku-Klondike


Er einhver enn hissa á því hversvegna helstu fjárfestar á Íslandi gersamlega missa sig þegar bjóða á út eitthvert orkufyrirtæki? Þeir sjá auðvitað fyrir sér Klondike-tímabil þegar þessi markaður opnast. Verðið í dag er um fimmfalt á Nord Pool svæðinu samanborið við Ísland og þegar upplýsingar eru grannt skoðaðar fer verðið upp í 100 evrur á Mw/klst í kuldaköstum á meginlandi Evrópu. Ofan á það eiga svo eftir að bætast skattar, dreifingagjald, línuverð, smásöluálagning og svo mætti lengi telja. Með öllu mega Íslendingar búast við allt að tíföldun á raforkuverði á Íslandi á meðan kuldakast gengur yfir í Þýskalandi eða „ef" olía til húshitunar hækkar í verði í Englandi. Stríð í Íran sem hækkar olíuverð. Gazprom skrúfar fyrir gas til Evrópu. Annað eins hefur gerst.

Einn fárra óumdeilanlegra kosta við að búa á Íslandi umfram önnur lönd er lágt orkuverð og þótt að Íslendingar hafi á undanförnum árum sólundað þeim tækifærum sem það gefur til uppbyggingar fjölbreyttra atvinnuvega hér með því að binda nærri 80% framleiðslu okkar í álverum, erum við þrátt fyrir allt sæmilega vel stödd. Það má segja að þær byrðar sem hár flutningskostnaður leggur á herðar framleiðslufyrirtækja hafi verið vegnar upp með ódýrri orku. En sæstrengur mundi breyta þessu öllu eins og hendi væri veifað og að frátaldri þeirri hefðbundnu handfylli Íslendinga sem mundi raka saman fé á þessu fyrirtæki, þá væri ráðlegt fyrir aðra að fara strax að venja sig af grænmetisáti og herða enn betur sultarólina margfrægu.

Er þetta þá alveg glatað dæmi?


Auðvitað er hægt að gera þetta rétt! Auðlindin verður væntanlega brátt í eigu þjóðarinnar í gegnum nýja stjórnarskrá og það mætti til dæmis fara eftir henni og binda forgangsorku til almennings hérlendis við verðið sem stóriðjan er að borga. Almennir notendur á Íslandi verða að hafa ótakmarkaðan aðgang að framleiðslunni. Umframframleiðsla gæti síðan verið seld úr landi. Lausnin er ekki að láta eiginhagsmuni hinna fáu ráða för heldur binda notkun auðlindarinnar í lög með hag alls almennings að leiðarljósi.

Á sama hátt og Norðmenn hafa byggt upp olíusjóð gæti Ísland safnað hagnaðinum í raforkusjóð og notað hann í þágu heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, menningarstarfa, stuðning við nýsköpun, til lækkunar skatta og þar fram eftir götunum. En þá þurfa menn að koma hreint fram og ræða svona fyrirfram og fyrir opnum tjöldum og eins og pukrast hefur verið með raforkuverð og virkjanamál í gegnum árin eru litlar líkur á að það gerist af sjálfu sér. Sá klúbbur sem sér hér leik á borði við orkuframleiðslu og sölu hefur til dæmis ekki rætt þennan gróðapýramída opinberlega. Hér verður þjóðin að halda vel á raforkuspöðunum, þessi framkvæmd getur ekki verið unnin af fólki sem er beint eða óbeint tengt inn í einkageira orkuvinnslunnar. Ganga verður opið og af hreinskiptni til verks. Raforkan er olía Íslands nema hvað hún mun endast að eilífu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×