Skoðun

Ísland: Nyrsta Afríkuríkið?

Vilhjálmur Egilsson skrifar
Á fundi Samtaka atvinnulífsins um skattamál þann 9. nóvember sl. gat ég þess að í hópi erlendra fjárfesta væri rætt um Ísland sem nyrsta Afríkuríkið. Ástæðu slíkrar nafngiftar má rekja til ýmissa ákvarðana stjórnvalda og atburða sem hér hafa gerst. Bjarni Gíslason, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, skrifaði grein í Fréttablaðið þann 27. nóvember sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en svo að hann móðgist fyrir hönd Afríku vegna samanburðarins. Í Afríku þurfi ekki að vantreysta orðum allra manna og Eþíópía, Malaví og Úganda eru nefnd til sögunnar en almennt hvatt til fjárfestinga í álfunni. Tilefni er til þess að ræða nokkuð um hvað veldur því að menn taka svona til orða um Ísland.

Alþjóðlegur samanburður á löndum er algengur. Nefna má úttektir á vegum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans og IMD en hér verður bent á tvær alþjóðlegar úttektir, aðra á vegum World Economic Forum (WEF) um samkeppnishæfni og hina á vegum Transparency International (TI) um spillingu. Á lista WEF er Ísland nú í 30. sæti og hefur fallið mikið á síðustu árum. Hæsta Afríkuríkið er Túnis í 40. sæti og á uppleið. Eþíópía, Malaví og Úganda eru í sætum 106, 117 og 121. Á lista TI er Ísland nú á niðurleið í 13. sæti en var áður í einu af efstu sætunum. Hæsta Afríkuríkið er Botsvana í 32. sæti. Eþíópía, Malaví og Úganda eru númer 120, 100 og 143. Erlendir fjárfestar skoða m.a. þessar tölur þegar þeir meta hvar vænlegt er að fjárfesta. Afríkuríki hafa átt erfitt með að laða að erlenda fjárfesta þótt mörg þeirra hafi náð þokkalegum efnahagslegum árangri á síðustu árum. Nú er helst fjallað um að Kínverjar fjárfesti í Afríku umfram aðra.

Veik staða

Staða Íslands veiktist mjög við hrunið, m.a. álit erlendra fjárfesta á landinu. Það veikir stöðu Íslands enn frekar þegar stjórnvöld standa ekki við gerða samninga hvort heldur þeir eru við innlenda eða erlenda aðila. En við slík mál bætist svo nýtt ástand vegna ógnana og ofbeldisverka gagnvart einstaklingum á Íslandi sem var óþekkt áður. Ber þar einna hæst árás á heimili innanríkisráðherra þar sem kastað var steini inn um stofuglugga og tilviljun ein réði að ekki varð af stór skaði.

Ísland hefur verið á niðurleið í alþjóðlegum samanburði meðan ýmis Afríkuríki hafa verið á uppleið. Haldi þessi þróun áfram má vænta þess að einhver Afríkuríki fari upp fyrir Ísland á nokkrum árum. Það getur ekki verið ásættanlegt markmið um framtíð Íslands að halda áfram á slíkri braut.

Óþarfi er að taka upp sérstaka þykkju fyrir Afríku þótt sagt sé frá því að í hópi erlendra fjárfesta sé rætt um Ísland sem nyrsta Afríkuríkið. Sannarlega hefur enginn á móti velgengni í Afríku og engin lítilsvirðing felst í samanburði milli landa. Ástæða er til að fagna árangri Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku. Íslendingar þurfa hins vegar að hugsa um að styrkja stöðu sína meðal þjóða heims og stefna að því að vera alltaf í fremstu röð.




Skoðun

Sjá meira


×