Körfubolti

Jason Terry gerir lítið úr frammistöðu Lin: 95 prósent leikkerfi D'Antoni að þakka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeremy Lin fer hér framhjá Jason Kidd.
Jeremy Lin fer hér framhjá Jason Kidd. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jason Terry, bakvörður Dallas Mavericks, er ekki með LINflúensu ef marka má ummæli hans um nýjustu stórstjörnuna í NBA-deildinni í körfubolta, Jeremy Lin leikmann New York Knicks. Terry tjáði sig um strákinn bæði fyrir og eftir að Dallas tapaði fyrir New York Knicks þar sem að Jeremy Lin var með 28 stig, 14 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

„Að mínu mati er frammistaða hans 100 prósent leikkerfi Mike D'Antoni að þakka," sagði Jason Terry en leiðrétti sig fljótlega. "95 prósent," sagði Jason Terry fyrir leikinn við New York og hann var ekki tilbúin að breyta um skoðun eftir að Lin fór fyrir New York liðinu í sigrinum á Dallas.

„Ef þú spilar 46 mínútur í leik í þessari deild þá hefur þú tækifæri til að ná góðum tölum. Svona er þetta bara. Það verður samt erfitt fyrir hann að halda þessum dampi og þið getið spurt hvern sem er. Ef þú færð tækifæri, boltann í hendurnar og leyfi til að taka meiri en 20 skot þá er eins gott að þú skilir einhverju til liðsins," sagði Terry.

Jason Terry er ekki sá eini sem telur að leikkerfi Mike D'Antoni sé lykillinn á bak við frammistöðu Jeremy Lin en flestir geta samt ekki annað en hrifist af frammistöðu Lin enda er hann með 25,0 stig, 9,5 stoðsendingar og 2,3 stolna bolta að meðaltali í leik síðan að D'Antoni setti hann í byrjunarliðið fyrir átta leikjum síðan. Það besta er að New York er búið að vinna alla leikina nema einn.

New York Knicks mætir New Jersey Nets í Madison Square Gaerden í New York í kvöld en það var einmitt gegn Nets-liðinu sem Lin fékk sitt fyrsta alvöru tækifæri 4. febrúar síðastliðinn.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×