Handbolti

Sérfræðingur á TV2 blótaði dönsku dómurunum | Til fjandans með ykkur!

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Hedin þjálfari og Ole Erevik markvörður voru bálreiðir eftir leikinn í gær.
Robert Hedin þjálfari og Ole Erevik markvörður voru bálreiðir eftir leikinn í gær. Nordic Photos / AFP
Leikmenn og þjálfari norska landsliðsins voru algjörlega trítilóðir út í dönsku dómarana eftir tapið gegn Íslandi í gær.

Vildu þeir meina að brotið hefði verið á Bjarte Myrhol línumanni þegar um 30 sekúndur voru til leiksloka og staðan 33-32. En í stað þess að dæma víti varði Björgvin Páll skot Myrhol, Ísland brunaði í sókn og skoraði á lokasekúndum leiksins.

Einn þeirra sem missti algjörlega stjórn á skapi sínu var sérfræðingur norsku TV2-sjónvarpsstöðvarinnar sem sýndi leikinn beint. Sá heitir Harald Bredeli.

Smelltu hér til að heyra upptöku af þessu.

„Augljósasta víti handboltasögunnar," sagði hann eftir að dönsku dómararnir ákváðu að dæma ekki víti. „Nei! Nei! Nei! Nei! Danir - þetta er víti! Með hvaða liði haldið þið eiginlega," öskraði hann svo.

Svo eftir að leikurinn var flautaður af lét hann móðan mása. „Þetta er með ólíkindum! Enn og aftur fer þetta til helvítis gegn Íslandi. Við gerðum líka mistök - Espen Lie Hansen skaut boltanum frá sér. En dönsku dómararnir - guð minn góður. Til fjandans með ykkur!"

„Afsakið orðbragðið en það var tekið af okkur víti sem hefði getað tryggt okkur sæti í milliriðlunum. Þetta er skandall. Þetta er dómaraskandall. Þetta var augljóst víti."

Bredeli baðst svo aftur sérstaklega afsökunar á vef TV2 eftir útsendinguna og sagðist harma það sem hann sagði, þó svo að hann hafi ekki breytt um skoðun. „Maður getur ekki sagt hvað sem er," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×