Handbolti

Arnór: Við tókum bara Króatana á þetta

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Mynd/Vilhelm
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, og Arnór Atlason voru ánægðir með sigurinn á Norðmönnum í gærkvöldi enda leit þetta ekki alltof vel út þegar Norðmenn voru komnir fjórum mörkum yfir í seinni hálfleik.

„Það var aðdáunarvert að upplifa þennan karakter, þennan sigurvilja og þetta æðruleysi sem einkenndi liðið allan tímann. Það var mjög vel spilað út úr þessu í lokin," sagði Guðmundur.

„Við spiluðum af skynsemi í seinni hálfleik og við bættum vörnina. Hún var eiginlega orðin frábær því við fáum bara á okkur 12 mörk í síðari hálfleik sem er afburðargott. Það var engin lognmolla í hálfleik þegar ég lýsti því hvað mér fannst um vörnina í fyrri hálfleik. Við fórum yfir hana og við gerðum breytingar og mér fannst þessar áherslubreytingar svínvirka," sagði Guðmundur.

„Ég get ekki annað en hrósað drengjunum fyrir þennan frábæra síðari hálfleik. Við spiluðum reyndar frábæran sóknarleik í fyrri hálfleik en fengum á okkur 20 og varnarleikurinn var afspyrnuslakur í fyrri hálfleiknum og markvarslan sömuleiðis. Það verður að segjast eins og er. Við bættum þetta hvorutveggja í síðari hálfleik og uppskárum stórkostlegan sigur á móti mjög erfiðu liði," sagði Guðmundur.

„Við tókum bara Króatana á þetta. Við lentum í þessu í síðasta leik. Þetta var óþolandi í fyrri hálfleiknum þegar við náðum aldrei í þá. Það var ekki boðlegt hvernig þeir löbbuðu þá í gegnum okkur. Við komust aðeins meira í þá í seinni hálfleik, náðum fleiri aukaköstum, Bjöggi tók fleiri bolta í markinu og við náðum fleiri hraðaupphlaupum sem við þurftum til að vinna leikinn," sagði Arnór Atlason.

„Sóknarleikurinn hikstaði aðeins í seinni hálfleik eftir að hafa gengið mjög vel í fyrri hálfleiknum. Þetta leit ekki vel út því við vorum komnir fjórum mörkum undir. Þetta er bara karakter að klára þennan leik, við getum verið rosalega sáttir með þessi tvö stig en verðum líka að viðurkenna að við vorum heppnir," sagði Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×