Hljómsveitin The Cure ætlar að spila á Hróarskelduhátíðinni í sumar. Þetta verður í fyrsta sinn í ellefu ár, eða síðan 2001, sem Robert Smith og félagar heiðra hátíðargesti með nærveru sinni. Fjögur ár eru liðin síðan síðasta plata The Cure, 4:13 Dream, leit dagsins ljós. Meðal annarra flytjenda á Hróarskeldu verða Björk, Bruce Springsteen og Bon Iver.
The Cure hefur einnig boðað komu sína á fleiri tónlistarhátíðir í sumar, þar á meðal á Pinkpop í Hollandi sem verður haldin í lok maí þar sem Bruce Springsteen og Soundgarden stíga einnig á svið. Sveitin spilar jafnframt á Eurockeennes sem verður haldin í Frakklandi í lok júní og á hátíðunum Heineken Jammin og Rock In Roma sem verða haldnar á Ítalíu í júlí.

