Lífið

Sigurrós setur nýtt lag á Netið - Platan heitir Valtari

Aðdáendur hljómsveitarinnar Sigur Rósar eru himinlifandi eftir að sveitin setti í dag nýtt lag, Ekki múkk, á myndbandasíðurnar Vimeo og YouTube (hægt er að hlusta á lagið hér fyrir ofan). Einnig eru komnar nánari upplýsingar um nýjustu plötu sveitarinnar, sem hefur hlotið nafnið Valtari.

Í nýju viðtali við tónlistartímaritið Q kemur í ljós að platan kemur út 28. maí. Þar lýsir Jónsi henni meðal annars sem snjóflóði sem er sýnt hægt og hefur Georg Hólm svipaða sögu að segja, hann líkir henni við að horfa á gamalt landslagsmálverk.

Hljómsveitin fer á tónleikaferðalag með haustinu og hefur nú þegar tilkynnt um fjórtán tónleika. Í viðtalinu í Q kemur fram að sveitin hanni sína eigin sviðsmynd fyrir tónleikana og að hún sé nokkuð flókin. Upphaflega hafi þeir aftur á móti verið í samstarfi við Ólaf Elíasson vegna sviðsmyndarinnar. Þeir hættu aftur á móti við það þegar í ljós kom að hugmyndir Ólafs hugnuðust þeim ekki en þær snerust aðallega um "reyk og loftbólur".

Valtari er sjötta plata Sigur Rósar. Fjögur ár er síðan síðasta plata sveitarinnar, Með suð í eyrum við spilum endalaust, kom út. Þá gaf Jónsi út sólóplötuna Go fyrir tveimur árum. Nýja platan telur átta lög. Þau heita Ég anda, Ekki múkk, Varúð, Rembihnútur, Dauðalogn, Varðeldur, Valtari og Fjögur píanó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.