Lífið

Nýdönsk fagnar 25 ára afmæli í Eldborg

25 ára Hljómsveitin Nýdönsk fagnar 25 ára afmæli sínu á þessu ári með ýmsum uppákomum.
25 ára Hljómsveitin Nýdönsk fagnar 25 ára afmæli sínu á þessu ári með ýmsum uppákomum.
„Við ætlum að gera þetta ár að dálítið löngu afmæli sem myndi enda með látum á þessum tónleikum,“ segir Jón Ólafsson úr Nýdönsk.

Hljómsveitin heldur upp á 25 ára afmælið sitt á þessu ári með alls kyns uppákomum. Afmælistónleikar verða í Eldborgarsal Hörpunnar 22. september og í Hofi á Akureyri viku síðar. Þar munu góðir gestir heiðra sveitina með nærveru sinni. „KK er klár og mig dreymir um að fá Svanhildi Jakobsdóttur til að syngja Á sama tíma að ári með Birni Jörundi,“ segir Jón og tekur fram að fleiri gestir muni bætast við á næstu vikum. Tónleikarnir verða gefnir út á mynddiski fyrir jólin.

Fram að þeim ætla valinkunnir tónlistarmenn að hljóðrita eigin útgáfur af uppáhaldslagi sínu með Nýdönsk. Meðal þeirra eru KK, Mugison, Retro Stefson og Hjaltalín. „Við erum mjög spenntir að vita hvað verður gert við lögin okkar og þau fá alveg frjálsar hendur.“ Útgáfa KK á laginu Frelsið verður einmitt frumflutt á Rás 2 á morgun.

Danstónlistarþátturinn Partyzone stendur einnig fyrir keppni á Rás 2 þar sem lög Nýdanskra, þar á meðal Alelda, Ilmur og Landslag skýjanna, verða endurhljóðblönduð og hefst hún eftir nokkra daga.

Forsala á tónleikana í Eldborg og Hofi hefst 26. apríl. Miðað við vinsældir tónleiksins Nýdönsk í nánd, sem verður einmitt sýndur í Hofi á páskadag, er ljóst að hún á eftir að ganga vel. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.