Lífið

Heldur hátíð í Færeyjum

Fjölnir Geir Bragason.
Fjölnir Geir Bragason. Mynd/Daníel
Fo Tatt Fest fer fram í fyrsta sinn í Færeyjum dagana 18. til 20. maí. Fjölnir Geir Bragason húðflúrlistamaður stendur fyrir hátíðinni og hyggst gera hana að árlegum viðburði.

„Ég hef heimsótt Færeyjar reglulega frá árinu 1998 og finnst Færeyingar afskaplega indælt og gott fólk með mikinn áhuga á húðflúri. Mig langaði að vekja athygli Færeyinga á því sem er að gerast í húðflúrheiminum og ákvað því að bjóða nokkrum af bestu húðflúrlistamönnum Skandinavíu, sem eru jafnframt meðal þeirra fremstu í heiminum, til landsins. Ég fékk hið stórkostlega Norðurlandahús í Þórshöfn undir batteríið en þar er líka ákaflega fallegur tónleikasalur þannig ég ákvað að beina um leið sviðsljósinu á það flotta tónlistarlíf sem ríkir í Færeyjum," útskýrir Fjölnir Geir og bætir við að tónlistarmennirnir Krummi Björgvinsson í Legend og Barði í Bang Gang hafi báðir sýnt því áhuga að koma fram á hátíðinni.

Inntur eftir því hvort einhver munur sé á flúrvali Íslendinga og Færeyinga svarar Fjölnir játandi. „Færeyingar eru mjög trúaðir og það hefur áhrif á flúrvalið. Fólk fær sér gjarnan nöfn systkina eða húðflúr til að minnast látinna ættingja. Maður finnur svolítið fyrir fordómum gangvart húðflúri meðal öfgafyllri málsvara kristinnar trúar en unga fólkið spyrnir við fótum af miklum krafti og það má vel greina miklar breytingar í samfélaginu."

Fjölnir ætlar sér að taka upp heimildarmynd á meðan á hátíðinni stendur en hann gerði einmitt heimildarmyndina Flúreyjar um heimsókn sína og Jóns Páls til Færeyja árið 2009. „Mig langar að gera þetta að árlegri vorhátíð. Hugmyndinni hefur verið vel tekið í Færeyjum og mér finnst þess virði að prófa þetta," segir hann að lokum.

Áhugasamir geta fylgst með fréttum af hátíðinni á samskiptasíðunni Facebook undir nafninu Fo Tatt Fest. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.