Innlent

Hafnaði tugmilljónum í typpin

Hjörtur Sigurðsson reðurstofustjóri.
Hjörtur Sigurðsson reðurstofustjóri. Mynd/GVA
„Hann vildi vita hvort áhugi væri á því að selja safnið og bauð yfir þrjátíu milljónir króna í það. En það kemur ekki til greina að selja, því safnið verður að vera á Íslandi," segir Hjörtur Sigurðsson reðurstofustjóri um þýskan auðkýfing sem vildi eignast Hið íslenzka reðasafn fyrir skemmstu. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hátt tilboð berst í safnið.

„Einhvern tíma var reynt að kaupa safnið til Bretlands og svo buðu Íslendingar tuttugu milljónir í það rétt áður en við fluttum suður," segir Hjörtur en safnið var til skamms tíma á Húsavík en flutti á Laugaveg í lok síðasta árs.

Reðursafninu var nýlega boðið að taka þátt í Supertalent, þýskri útgáfu hinna vinsælu Got talent-skemmtiþátta sem njóta vinsælda víða um heim.

„Það hringdi einhver framleiðandi og vildi fá okkur til Þýskalands í upptökur í vor. Þeir ætluðu að fá Þjóðverjann Peter Kristiansen, sem hefur heitið því að gefa safninu lim sinn í fyllingu tímans, til að mæta líka. Ég afþakkaði, enda grunar mig að þetta hafi átt að vera einhvers konar uppfyllingarefni. Hvernig er hægt að flokka það sem hæfileika að safna typpum?" veltir Hjörtur fyrir sér. -kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×