Íslenski boltinn

Jón Daði og Glódís Perla efnilegustu leikmenn Pepsi-deildanna í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. Mynd/Daníel
Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson og Stjörnustelpan Glódís Perla Viggósdóttir voru valin efnilegustu leikmenn Pepsi-deildanna í sumar. Valið var tilkynnt í sérstakri athöfn í Silfurbergi í Hörpu í kvöld en hátíðin var einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Jón Daði Böðvarsson er 20 ára miðjumaður og fór mikinn með Selfossliðinu í sumar. Jón Daði var þar með 7 mörk og 4 stoðsendingar í 22 leikjum en tókst þó ekki að koma í veg fyrir að Selfyssingar féllu úr deildinni í annað skiptið á þremur árum.

Jón Daði er fyrsti Selfyssingurinn sem fær svona stór verðlaun og ennfremur fyrsti leikmaður úr falliði sem hreppir þau síðan að Ólafur Þór Gunnarsson, markvörður ÍR, var valinn efnilegastur eftir sumarið 1998.

Glódís Perla Viggósdóttir er 17 ára varnarleikmaður sem var á sínu fyrsta ári í Pepsi-deild kvenna. Glódís fékk sitt fyrsta tækifæri með A-landsliðinu í sumar en hún kom til Stjörnunnar frá HK/Víkingi þar sem hún hefur spilað í b-deildinni undanfarin sumur.

Glódís Perla er fyrsta Stjörnustelpan til þess að fá þessi verðlaun síðan að markvörðurinn María Björg Ágústsdóttir var valin efnilegust eftir sumarið 2000. Hún er einnig fyrsti varnarmaðurinn sem fær þessi verðlaun í áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×