Veiði

Óþolandi sóðaskapur við ár og vötn

Svavar Hávarðsson skrifar
Útsýnið frá veröndinni í Ásgarði er stórbrotið.
Útsýnið frá veröndinni í Ásgarði er stórbrotið. Trausti Hafliðason
Allir sem njóta þess að veiða fisk á stöng bíða vormánaðanna með mikilli eftirvæntingu. Veturinn er lengi að líða og helst má una sér við það að vefja flugur, skoða myndbönd af veiðum annarra og eigin myndasöfn af eftirminnilegum fiskum. Þetta þekkja allir.

Þegar vorið loksins reisir höfuðið úr frosinni jörðinni og klakinn hörfar af veiðivötnum og ám byrja veiðimenn að undirbúa fyrstu veiðitúranna; eftirvæntingin er fölskvalaus og oft gera menn sér lítið að góðu. Enginn setur það sérstaklega fyrir sig að fara fisklaus heim úr veiðitúr þegar það frýs í lykkjunum og helstu áhyggjurnar snúast um það hvort hendur og nef séu kalinn eður ei.

En mikið er það svo gott þegar hlýnar og flugan vaknar, eins og vonin um veiði. Léttir í skapi fjölmenna veiðimenn að bökkunum með stigvaxandi væntingar.

Þetta er Þingvallavatn, gott fólk!


Ef einhver staður á jarðríki er fallegur, þá eru það Þingvellir. Einhver myndi vilja meina að þar sé miðpunktur náttúruunnenda og Þingvallavatn sér til þess að það er svo sannarlega skoðun þeirra veiðimanna sem þangað sækja oft eða sjaldan. Ég er í seinni hópnum; ég fer sjaldan að Þingvallavatni og fáa fiska hef ég haft með mér heim úr vatninu sem þó er pakkað af bleikju og stórurriða, sem ég hef reyndar lengi vitað að er konungur vatnafiska hér á landi.

Nú brá svo við að ég og nokkrir félagar mínir rifum okkur upp um síðustu helgi og fórum í fyrsta alvöru veiðitúr sumarsins. Þingvallavatn með viðkomu í Úlfljótsvatni og þaðan í Ásgarð á bökkum Sogsins. Til að gera langa sögu stutta fengum við hvorki né sáum fisk í Þingvallavatni en margt var þar að sjá, eins og alltaf.

Á þeim litla bletti sem við fórum yfir var rusl það sem helst vakti athygli. Á fallegum veiðistað höfðu einhverjir snillingar setið með snakkpoka og bjór. Létt hefur sú byrði verið á leiðinni niður að vatninu og hefði átt að vera léttari á bakaleiðinni. Þó sáu menn ekkert athugavert við það að troða tómum pokunum og bjórdósunum ofan í eina klettasprunguna svo blasti við sjónum þeirra sem þar áttu leið um. Ég vakti athygli á þessu við veiðifélaga mína sem þá höfðu þegar rætt hversu ömurleg þessi sjón var. En þeim fannst heldur engin prýði af uppbrunnu einnota grillinu sem lá á botni annarrar sprungu og blasti við sjónum í blátæru vatninu.

Við Sogið


Ásgarðssvæðið í Soginu er hrikalegt í fegurð sinni. Náttúran öll er einstök og áin mikil vöxtum. Varla þarf að fjölyrða um það að varlega skal farið á þessum stað sem getur veriðsvo gjöfull á stóra bleikju og enn stærri laxa. Við sáum ekki bleikju og auðvitað ekki lax, þó við fréttum það við heimkomu að daginn áður hafði fyrsti laxinn í sumar komið á land frá bakkanum hinum megin; í Bíldsfelli. Stórkostlegt! Laxinn er vissulega mættur.

Á nokkurra metra kafla undum við okkur lengst þarna við Sogið. Þrír veiðistaðir eru hver ofan í öðrum; Frúarsteinn, Bryggjan og Bátalón, þar sem við höfðum vonast eftir bleikju hvað helst. En það fór þó svo að við sáum ekkert og kenndum við því um hversu kalt hafði verið dagana á undan. Raunhæfara er að kenna því um að kunnátta okkar hafi einfaldlega ekki verið meiri en þetta. Allir vorum við þarna í fyrsta skipti og vissum ekkert hvað við vorum að gera. Best að segja bara eins og er.

En það þurfti ekki neina sérstaka kunnáttu til að vita að bjórdósirnar þrjár sem hafði verið reynt að fela undir steinum þarna við þrenninguna góðu áttu ekki heima þar. Eftir að hafa dröslast með fullan poka af rusli frá Þingvallavatni var mér öllum lokið. Ég spurði mig einfaldlega hver/hverjir það væru sem ekki bera meiri virðingu fyrir þeim einstöku gæðum sem fallegustu náttúruperlur okkar eru. Árnar eru einstök náttúrufyrirbrigði og vistkerfin sem þau geyma fóstra fiskinn sem við erum að elta. Ég horfði út á spegilslétta ána; sá straumendurnar, kríuna, álftirnar baðaða í sólargeislum. Ég spurði mig: Hver hefur gaman af því að veiða hérna en kann ekki að meta ána og þá sem hér búa?

Með þetta, og bjórdósirnar, gekk ég upp í veiðihús. Aftur kom sóðaskapurinn til tals og þá benti veiðifélagi minn mér á stutta færslu í gestabókinni sem liggur þar frammi. Þar kom fram að nokkrum dögum fyrr gistu nokkrir vinir við ána. Í færslunni segir að þegar þeir komu að veiðihúsinu og stigu út á veröndina blasti við ömurleg sjón. Bjórdósum hafði verið hent af veröndinni og út í kjarr. En þá er sagan ekki öll sögð því þeir sömu höfðu einnig verið að gæða sér á lambatvírifjum og eftir að hafa étið sig sadda hent beinunum sömu leið og dósunum.

Fyrsta verk þessara vina, sem komu í þessa paradís, var því að taka upp bjórdósir og nöguð bein sem héngu á trjágreinum nokkrum metrum frá veröndinni, í bókstaflegri merkinu.

Ekkert svar.


Eftir að hafa veitt í fjölmörgum ám og vötnum hérna heima þá ætti ég að vera orðinn vanur þessum ótrúlega sóðaskap. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef troðið veiðivestið mitt og töskur fullar af rusli annarra „veiðimanna". Og þetta fer sífellt meira í taugarnar á mér.

Fyrir þá sem þetta lesa hef ég bara þetta að segja. Gerum það að markmiði okkar að breyta þessu. Göngum um íslenska náttúru á þann veg sem hún á skilið. Ég veit að það eru færri en fleiri sem haga sér eins og óvitar, en það er skylda okkar hinna að minna menn á að ganga vel um. Reynum að fjölga veiðitúrunum þar sem við komum heim sáttir. Það er nefnilega ekkert að því að koma fisklaus heim. Áin eða vatnið duga oftast til þess að gera daginn betri. Það er hins vegar óþolandi að renna í hlað eftir veiðitúr með skottið fullt af rusli sem einhver annar nennti ekki að bera með sér til baka. Og þegar svo er skiptir ekki máli hvort sett hefur verið í fisk eða ekki. Það er nefnilega búið að eyðileggja það sem er hvað eftirsóknarverðast við það að búa á landinu bláa.






×