Skoðun

Komdu út að leika

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Við fögnum Degi barnsins í fimmta sinn á morgun en samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar frá því í október árið 2007 er dagur barnsins haldinn hátíðlegur síðasta sunnudag í maí. Yfirskrift dagsins í ár er „Gleði og samvera“.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi vinna nú að átaksverkefninu „Hreyfing og líkamlegt heilbrigði“ sem ætlað er að efla vitund um mikilvægi heilbrigðs lífs fyrir börn; hvort heldur er út frá líkamlegu og andlegu heilbrigði sem og í forvarnarlegu tilliti.

Verkefnið byggir á ákvæðum barnasáttmála um rétt barna til heilsuverndar og banni við mismunun, einnig á ákvæðum sáttmálans um ábyrgð foreldra og aðildarríkja.

Umræðan um líkamlegt heilbrigði barna þarf á ölllum tímum að vera lifandi og frjó. Við þurfum að hafa vakandi auga með þróuninni hér á landi, hvað varðar næringu og þyngd barna á Íslandi. Það eru ekki einungis heilsufarslegar afleiðingar fyrir börnin sem um ræðir heldur einnig sjálfsmynd þeirra sem er í mótun.

Foreldrar eru í lykilhlutverki í þessu sem og öðru er varðar börn þeirra. Þeir eru ekki eingöngu helstu fyrirmyndir þeirra, heldur bera þeir ábyrgð á innkaupum og mataræði fjölskyldunnar. Barn sem horfir á foreldra sína lifa heilbrigðu lífi, huga að hollu mataræði og stunda reglulega hreyfingu er líklegt til að vilja feta í sömu fótspor.

Öll börn, óháð efnahag foreldra, eiga rétt á að stunda hreyfingu við hæfi, íþrótta- og frístundastarf. Flestir eru sammála um að leikir, íþróttir og almenn hreyfing hafa forvarnagildi. Margar rannsóknir hafa t.a.m. sýnt að börn sem stunda íþróttir eru í minni hættu á að leiðast út í vandamál tengd unglingsárunum. Það er á ábyrgð okkar að skapa þeim viðeigandi vettvang til íþrótta- og tómstundaiðkana þar sem þau geta komið saman, leikið sér og fengið hreyfingu við hæfi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×