Enski boltinn

Wenger: Við misstum aldrei trúna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsenal er komið upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir mjög svo erfiða byrjun á tímabilinu í haust.

Liðið tapaði meðal annars fyrir Manchester United með átta mörkum gegn tveimur og var fyrstu vikurnar í kringum fallsvæði deildarinnar.

En Arsenal byrjaði að bíta frá sér og með Robin van Persie fremstan í flokki hefur liðið aftur náð að blanda sér af alvöru í baráttu efstu liða deildarinnar.

Liðið vann 1-0 sigur á QPR í gær og komst með sigrinum upp fyrir Chelsea í fjórða sætið. Wenger sagði að það hefði verið mikilvægt að halda ró sinni þegar gengið var sem verst.

„Ég sagði strákunum að við yrðum bara að taka á okkur gagnrýnina og einbeita okkur að því að spila betur og ná betri úrslitum," sagði Wenger við enska fjölmiðla. „Ég vil hrósa leikmönnum mínum fyrir það því á tímabili vorum við í sautjánda eða átjánda sæti deildarinnar."

„En það var enginn að fást neitt sérstaklega um það og okkur tókst að bæta okkur sem liðsheild. Mér finnst það liðsandinn fyrst og fremst sem hefur fleytt okkur þetta langt."

„Við höfum enn svigrúm til að bæta okkur en grunnurinn er vikrilega góður vegna þess að viðhorf leikmanna er gott og jákvæðnin mikil."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×