Enski boltinn

Grétar Rafn: Allir leikir eru úrslitaleikir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn í leik með Bolton.
Grétar Rafn í leik með Bolton. Nordic Photos / Getty Images
Grétar Rafn Steinsson er hæstánægður með að hafa endurheimt sæti sínu í byrjunarliði Bolton eftir hann missti af leik vegna veikinda.

Grétar Rafn var í liði Bolton gegn Wolves um helgina en liðin skildum jöfn, 1-1. Þar áður tapaði Bolton fyrir Newcastle en Grétar Rafn var veikur og missti því af leiknum. Þá var hann nýkominn aftur inn í liðið eftir að hafa verið í kuldanum hjá Owen Coyle, stjóra liðsins.

„Ég var búinn að bíða lengi eftir því að komast í byrjunarliðið og fékk tækifærið loksins gegn Blackburn. Ég vildi svo spila gegn Newcastle en var því miður rúmliggjandi," sagði Grétar Rafn við enska fjölmiðla.

„Ég var því mjög glaður með því að vera aftur í byrjunarliðinu nú. Því miður tókst okkur ekki að vinna leikinn en við þiggjum þó stigið."

„Þetta var stærsti leikur tímabilsins og næsti leikur verður líka stærsti leikur tímabilsins. Við verðum að spila hvern leik eins og hann væri okkar síðasti."

Þar sem að Blackburn vann óvæntan sigur á Manchester United um helgina komst liðið upp fyrir Bolton sem situr eftir í botnsæti deildarinnar með þrettán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×