Enski boltinn

Mancini: Misstum af stóru tækifæri í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Mancini á hliðarlínunni í dag.
Roberto Mancini á hliðarlínunni í dag. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, var gáttaður eftir tap sinna manna fyrir Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í dag, 1-0.

Varamaðurinn Ji Dong-Won skoraði sigurmark Sunderland í blálok leiksins eftir skyndisókn. City sótti þó mikið í leiknum og fékk fjölmörg góð færi.

„Við áttum skilið að vinna þennan leik. Þetta var ótrúlegt. Svona er fótboltinn," sagði Mancini. „Ég veit ekki hvað við fengum mörg tækifæri í dag. Það er einfaldlega bannað fyrir lið eins og okkar að fá á okkur mark úr skyndisókn í lokin."

„Við misstum af stóru tækifæri í dag því við áttum möguleika á því að komast þremur stigum á undan Manchester United. Það má líklega skrifa þetta á óheppni því við okkur tókst ekki að skora þrátt fyrir að hafa fengið fullt af færum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×