Enski boltinn

Daily Mail: Ferguson setti Rooney í agabann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney í leik með Manchester United.
Wayne Rooney í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Enska götublaðið Daily Mail heldur því fram í dag að Wayne Rooney hafi ekki spilað með Manchester United gegn Blackburn í gær þar sem að hann hafi verið í agabanni.

Blaðið segir að Rooney og eiginkona hans, Coleen, hafi farið út að borða með þeim Darron Gibson og Jonny Evans og þeirra mökum að kvöldi annars dags jóla. United hafði unnið 5-0 sigur á Wigan fyrr um daginn.

Þeir mættu svo allir á æfingu næsta dag og ræddu sín á milli um kvöldið. Alex Ferguson heyrði af þessu og boðaði Rooney á sinn fund. Ekki er greint frá því hvað þeir ræddu nákvæmlega um en samkvæmt blaðinu virðist Ferguson hafa talið að þremenningarnir hafi brotið agareglur með því að fara út á lífið.

Ekki er fullyrt í greininni að þeir hafi neytt áfengis - heldur aðeins að þeir hafi farið á veitingastað til fá sér að borða.

Ferguson sagði í viðtali fyrir leikinn gegn Blackburn í gær að Rooney hefði ekki getað æft nógu vel fyrir leikinn og því hafi verið ákveðið að hvíla hann. United tapaði leiknum, 3-2, og horfði Rooney á hann úr stúkunni. Evans er meiddur en Gibson spilaði ekki heldur í gær.

Blaðið heldur því einnig fram að þeir hefðu þurft að æfa aukalega á miðvikudaginn en þá áttu þeir að vera í fríi. Rooney mun einnig hafa verið sektaður um háa upphæð.

Talsmenn United vildu ekki tjá sig við blaðið þegar eftir því var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×