Enski boltinn

Balotelli hefur rætt við Milan-liðin en ætlar ekki að fara frá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Nordic Photos / Getty Images
Mario Balotelli greinir frá því í enskum fjölmiðlum í dag að hann hafi verið í sambandi við bæði AC Milan og Inter Milan. En að hann ætli sér ekki að fara frá Manchester City í bráð.

Balotelli vakti gríðarlega athygli árið 2011 fyrir hin ýmsu uppátæki innan sem utan vallar og byrjar nýja árið á því að bendla sjálfan sig við ítölsku stórveldin.

„Massimo Moratti, forseti Inter, sagði um daginn að hann myndi taka mig samstundis til baka. Ég kann honum þakkir fyrir það en ég vil ekki fara frá Manchester City eins og er," sagði Balotelli í viðtali við The People í dag.

„Ég er ekki að hugsa um að snúa aftur til Ítalíu eins og er, þó svo að ég hafi rætt við bæði AC Milan og Inter. Hvað Napoli varðar þá finnst mér borgin heillandi en það eru önnur lið á Spáni og Englandi sem mér finnst meira spennandi."

Balotelli hefur skorað sex mörk í sautján úrvalsdeildarleikjum með City í haust en liðið mætir sunderland á útivelli klukkan 15.00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×