Innlent

Vilja skipalægi við Hörpuna og að tónlistarhúsið verið "terminal“

Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg vilja breyta höfninni við Skúlagötu í skemmtiferðaskipalægi og að Harpan yrði nýtt í í aðkomuhús eða „terminal" fyrir gesti skipanna. Þetta kemur fram í ályktun sem Björn Jón Bragason sendi á fjölmiðla fyrir hönd samtakanna.

Þar segir meðal annars: „Íslendingar eiga þó langt í land með að skapa viðunandi aðkomu fyrir skemmtiferðaskipin, en fæst þeirra komast inn á innri höfnina og verða því að leggjast að bryggju í Sundahöfn. Þar er umhverfið ekki sem glæsilegast – gámar og ólykt. Vart er til svo fátækt ríki í Karabíska hafinu að þar sé ekki skemmtiferðaskipalægi alveg við miðbæi viðkomandi höfuðstaða. – Þaðan sem gestir geta gengið í land, litið í söfn, skoðað áhugaverða staði, sótt tónlistarviðburði, litið inn á matsölustaði og verslað."

Í ályktuninni segir að slíku sé ekki að heilsa hér á landi, og er fullyrt að gestir skemmtiferðaskipa skilji lítið eftir sig í tekjum hér innanlands, en skemmtiferðaskipin þurfa oftar en ekki að leggjast að bryggju í Sundahöfn.

Samtökin, sem er líklega frægust fyrir að vera andvíg lokunum á umferð um Laugaveginn yfir hásumarið, eru með lausnir fyrir þessi vandamál og segja að það væri best ef skipalægi fyrir skemmtiferðaskip yrði útbúið við höfnina Skúlagötu.

„Ef skemmtiferðaskipalægi yrði fundinn staður við Skúlagötu mætti hugsa sér að Harpan gæti nýst sem glæsilegt aðkomuhús eða terminal. Þar færi fram tollskoðun og allir gestir af skemmtiferðaskipum gengju þar í gegn. Um leið gæfist færi á að hafa þar tónleika á daginn yfir sumartímann og drýgja þannig tekjur af húsinu. En undanfarið hefur mikill taprekstur tónlistarhússins verið til umræðu," segir Björn í pistli sínum.

Ályktunin lýkur svo á þessum orðum: „En hvað sem því líður er mikilvægt fyrir uppbyggingu og framþróun ferðamennsku í Reykjavík að huga alvarlega að nýrri aðkomu skemmtiferðaskipa til borgarinnar – enda gríðarlegar tekjur í húfi. Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg hvetja borgaryfirvöld til að setja þetta brýna hagsmunamál Reykvíkinga á dagskrá."

Ályktunin í heild sinni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×