Fótbolti

Heimir Guðjóns: Vissum að Bjarki myndi spila vel í þessum leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Vilhelm
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var ánægður með 1-1 jafntefli liðsins gegn AIK í fyrri leik liðanna í 2. umferð Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Leikið var á Råsunda-leikvanginum í Solna í Svíþjóð í dag.

„Þetta var góður leikur af hálfu FH. Við spiluðum sterkan varnarleik og beyttum skyndisóknum. Fyrstu tuttugu mínúturnar voru við í smá basli en eftir það fannst mér leikurinn í jafnvægi. Við fengum ágætis færi í þessum leik," sagði Heimir.

Atli Guðnason skoraði mark FH-inga í fyrri hálfleik þegar skot hans utarlega úr teignum hrökk af varnarmanni og í netið. Úrslitin frábær gegn sænska liðinu sem hefur slegið út þrjú íslensk lið síðastliðin sautján ár.

„Við erum auðvitað ánægðir með jafntefli en gerum okkur grein fyrir að það er leikur í næstu viku," sagði Heimir ánægður með varnarleik sinna manna.

„Mér fannst við ná að loka vel á spilið þeirra. Það voru einhver skot fyrir utan en annars náðum við að loka vel. Þeir sköpuðu ekki mikið í seinni hálfleik. Það vantaði upp á hjálparvörnina í markinu þeirra en engu að síður fín úrslit."

Leikurinn var í beinni útsendingu á Eurosport og vakti athygli lýsenda frábær frammistaða Bjarka Bergmanns Gunnlaugssonar á miðjunni hjá FH. Bjarki varð 39 ára í mars síðastliðnum.

„Það vita allir hvað Bjarki Gunnlaugsson kann og getur í fótbolta. Við vissum að Bjarki myndi spila vel í þessum leik. Hann er gríðarlega reyndur, hefur spilað svona leiki áður og á þessu velli áður. Hann var frábær í þessum leik," sagði Heimir.


Tengdar fréttir

Frábær úrslit hjá FH-ingum gegn AIK

FH-ingar gerðu sér lítið fyrir og gerðu 1-1 jafntefli gegn AIK í fyrri viðureign félaganna í 2. umferð Evrópudeildarinnar í knattspyrnu en leikið var í Solna í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×