Enski boltinn

Var fljótur að grípa tækifærið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur setið mikið á bekknum í Þýskalandi en vonast eftir því að spila meira með Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur setið mikið á bekknum í Þýskalandi en vonast eftir því að spila meira með Swansea. Mynd/Nordicphotos/Bongarts
Eins og kunnugt er þá er landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson á leið í enska boltann á nýjan leik. Félag hans, Hoffenheim, hefur lánað Gylfa til enska úrvalsdeildarliðsins Swansea út leiktíðina. Hjá Swansea hittir Gylfi fyrir stjórann Brendan Rodgers sem gaf honum tækifæri hjá Reading á sínum tíma.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Það hefur verið erfitt að sitja á bekknum í Þýskalandi en ég fæ vonandi tækifæri til þess að spila fótbolta núna," sagði Gylfi við íþróttadeild en af hverju hefur hann ekki verið að að fá tækifæri hjá Hoffenheim í vetur?

„Það kom nýr þjálfari og svo missti ég af undirbúningstímabilinu. Ég hef fengið fá tækifæri og ekki tekist að skora þegar ég hef fengið að spila. Þegar tækifærið gafst að fara til Englands var ég fljótur að grípa það."

Gylfi er vongóður um að Rodgers ætli sér að spila honum.

„Mér líkaði mjög vel við Rodgers er hann var hjá Reading og hann vill að sín lið spili fótbolta. Það hefur Swansea verið að gera og vonandi passa ég vel inn í boltann sem liðið spilar," sagði Gylfi sem segist vera í góðu formi og klár í slaginn.

„Ég vil spila sem allra fyrst. Ég var í mjög góðu formi fyrir jólin og hef haldið mér vel við. Enska deildin er hraðasta og besta deild heims og það verður gaman að spila þar."

Gylfi er samningsbundinn Hoffenheim næstu tvö árin en hann fær kjörið tækifæri til þess að sanna sig upp á nýtt með Swansea.

„Það er jákvætt að fá að spila núna og flott að ég fékk að fara í stað þess að sitja áfram á bekknum í Þýskalandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×