Enski boltinn

Gylfi talaði ekki við þjálfarann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er kominn til Wales þar sem hann mun spila með Swansea í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi Þór Sigurðsson er kominn til Wales þar sem hann mun spila með Swansea í ensku úrvalsdeildinni. Mynd/Nordicphotos/Bongarts
Holger Stanislawski, þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Hoffenheim, segir að hann hafi ekki rætt sérstaklega við Gylfa Þór Sigurðsson áður en gengið var frá lánssamningnum við Swansea. Stanislawski hafi heyrt af yfirvofandi félagaskiptum Gylfa frá umboðsmanni hans.

Hann hafi þó ekki ákveðið að banna Gylfa að fara. „Þetta er eins og þetta er. Við töluðum ekki saman. Þegar leikmaður vill ekki lengur spila með félaginu þá þýðir ekkert að reyna að láta hann skipta um skoðun. Það er tilgangslaust," er haft eftir Stanislawski.

Gylfi er samningsbundinn Hoffenheim til 2014 en óvíst er hvort hann hefur spilað sinn síðasta leik fyrir félagið. Hann fékk fá tækifæri hjá Stanislawski undir það síðasta – aðeins einn leik síðustu tvo mánuðina áður en deildin fór í vetrarfrí.

Samkvæmt könnun sem dagblaðið Rhein-Neckar Zeitung framkvæmdi á heimasíðu sinni voru 82 prósent stuðningsmanna Hoffenheim ósátt við brotthvarf Gylfa. Hafði einn þeirra á orði að miðað við orð þjálfarans væri ekki líklegt að Gylfi myndi snúa aftur – sem væru slæm tíðindi fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×