Handbolti

Komu Arnórs í heiminn flýtt svo Atli kæmist á ÓL

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Árið 1984 mun seint renna Atla Hilmarssyni úr minni. Þá eignaðist hann sitt fyrsta barn, fór á ÓL og spilaði svo í þýsku úrvalsdeildinni.
Árið 1984 mun seint renna Atla Hilmarssyni úr minni. Þá eignaðist hann sitt fyrsta barn, fór á ÓL og spilaði svo í þýsku úrvalsdeildinni. Mynd//Anton
Sú staða sem Snorri Steinn Guðjónsson er í þessa dagana er ekki ný hjá íslenska handboltalandsliðinu. Snorri getur ekki tekið þátt í undirbúningi landsliðsins fyrir EM þar sem hann bíður eftir því að konan hans fæði þeim barn.

Þegar liðsfélagi Snorra hjá AG og landsliðinu, Arnór Atlason, kom í heiminn árið 1984 lá mikið við því faðir Arnórs, Atli Hilmarsson, átti að fara á Ólympíuleikana í Los Angeles með landsliðinu en hann vildi heldur ekki missa af fæðingu frumburðarins.

Atli og fjölskylda voru komin til Þýskalands þar sem hann var búinn að semja við úrvalsdeildarliðið Bergkamen. Ísland komst bakdyramegin inn á leikana tveim mánuðum áður en þeir byrjuðu og þá þurfti að breyta ýmsum plönum.

Arnór er fæddur átta dögum fyrir fyrsta leik íslenska liðsins á Ólympíuleikunum en ákveðið var að flýta keisaraskurði svo Atli kæmist með landsliðinu til Bandaríkjanna.

„Það var alltaf klárt að það þurfti að taka Arnór með keisaraskurði. Mamma hans var fullgengin og allt í góðu. Fæðingunni var samt flýtt um nokkra daga svo ég kæmist á leikana. Á leikana fór ég daginn eftir að Arnór fæddist og náði að komast með liðinu út. Þetta er náttúrlega fáránlegt og myndi aldrei gerast í dag," sagði Atli er hann rifjar upp þennan eftirminnilega viðburð í sínu lífi.

„Ég fór í burtu frá þeim í þrjár vikur með einhverja eina mynd með mér. Þetta var ansi viðburðaríkur tími því þegar ég kem heim fór ég í móttöku á Bessastöðum til forsetans, svo var Arnór skírður og degi síðar er ég farinn til Þýskalands. Þegar við förum aftur út er Arnór orðinn rúmlega þriggja vikna og ég búinn að sjá hann tvisvar," sagði Atli en dvölin í Bandaríkjunum var honum ekki auðveld.

„Ég var engan veginn í sambandi. Það var ekkert Skype og GSM-símar á þessum tíma. Ég þurfti að fara í eitthvert símaver til þess að hringja heim. Þetta var alveg fáránlegt," sagði Atli sem er einn af bestu leikmönnum landsliðsins frá upphafi. Þrátt fyrir erfiða stöðu gekk honum vel á leikunum og var næstmarkahæstur í íslenska liðinu.

„Þetta er auðvitað skemmtileg minning í dag fyrst að þetta fór vel. Ég myndi samt ekki mæla með þessu fyrir neina fjölskyldu. Þessi saga sýnir samt hvað tímarnir hafa breyst mikið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×