Handbolti

Sem betur fer vöknuðu menn í hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Pjetur
Íslenska karlalandsliðið komst yfir brösuga byrjun og slakan fyrri hálfleik og náði að tryggja sér 31-31 jafntefli á móti Pólverjum í fyrsta undirbúningsleiknum sínum fyrir EM í Serbíu. Þetta var fyrsti leikur landsliðsins á fjögurra þjóða æfingamóti, Total Kredit Cup, sem fram fer í Danmörku um helgina.

Pólverjar voru 17-11 yfir í hálfleik og með 29-26 forystu þegar fimm mínútur voru eftir. Íslenska liðið vann lokakaflann 5-2 og línumaðurinn Kári Kristjánsson skoraði jöfnunarmarkið af miklu harðfylgni. Guðjón Valur Sigurðsson fór á kostum í leiknum og skoraði 13 mörk. Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk og þeir Kári og Alexander Petersson voru með fjögur mörk hvor.

„Þetta var mjög kaflaskipt. Þetta var slakur fyrri hálfleikur hjá okkur eiginlega á öllum sviðum en mjög góður síðari hálfleikur og það má jafnvel segja að hann hafi verið frábær," sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari.

„Þetta byrjaði illa en strákarnir komu aldeilis með réttu svörin í hálfleik og leystu þetta mjög vel bæði varnar- og sóknarlega. Það var jákvætt að enda þetta á þennan hátt."

„Þetta var ekki okkur samboðið í fyrri hálfleik. Við gerðum alltof mikið af tæknimistökum og afhentum þeim boltann ítrekað. Ég hef sjaldan upplifað annað eins því menn voru bara á hælunum. Sem betur fer vöknuðu menn í hálfleik og komu mjög grimmir til leiks í síðari hálfleik. Það var allt annað að sjá til liðsins og þannig þarf það að vera. Það tekur tíma að spila liðið í gang og það er ágætt að fá æfingaleikina til þess. Þegar upp var staðið þá var þetta mjög jákvætt hjá okkur," sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×