Handbolti

Hef fengið aukið sjálfstraust með Nøtterøy

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreiðar mun væntanlega verja mark íslenska landsliðsins á EM í Serbíu ásamt Björgvini Páli Gústavssyni. Hér eru þeir félagar saman eftir stórsigur Íslands á Austurríki í undankeppni EM í vor.
Hreiðar mun væntanlega verja mark íslenska landsliðsins á EM í Serbíu ásamt Björgvini Páli Gústavssyni. Hér eru þeir félagar saman eftir stórsigur Íslands á Austurríki í undankeppni EM í vor. Mynd/Pjetur
Hreiðar Levý Guðmundsson hefur fundið sig vel á æfingum íslenska landsliðsins síðan það hóf undirbúninginn sinn fyrir EM í Serbíu. Mótið hefst eftir rúma viku en Hreiðar er í góðu formi eftir að hafa spilað mikið með liði sínu í Noregi.

„Mér líður vel. Ég er búinn að æfa vel og það hefur verið mikið um styrktaræfingar hjá liðinu mínu í Noregi. Það er ekkert nema gott um það að segja," segir Hreiðar sem hefur ásamt Björgvini Páli Gústavssyni varið mark íslenska landsliðsins með miklum myndarskap undanfarin ár.

Fyrir tímabilið gekk hann til liðs við Nøtterøy sem situr nú í níunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Honum líður vel þar en þar áður lék hann með Emsdetten í þýsku B-deildinni. „Mér leið svo sem ekkert illa hjá Emsdetten en mér hefur gengið mjög vel síðan ég kom til Noregs. Ég óttaðist ekki að þetta væri skref niður á við enda mæti ég í hvert verkefni með því hugarfari að standa mig eins vel og ég mögulega get."

Hreiðar spilar nánast hverja einustu mínútu með Nøtterøy og segir að sér hafi gengið vel. „Með því fær maður aukið sjálfstraust sem skiptir vitanlega miklu máli. Ég er líka með öfluga vörn fyrir framan mig en það er fyrst og fremst sóknarleikurinn sem hefur verið okkar vandamál."

Þess má svo geta að Björgvin Páll skipti einnig um lið í sumar en hann leikur nú með Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni. Samstarf þeirra í landsliðinu hefur verið gott og það breytist ekki.

„Við reynum ávallt að hjálpa hvorum öðrum og skila sem mestu til liðsins. Það er alltaf gaman að hefja þessa janúartörn og nú getur maður leyft sér að hugsa um ekkert annað en handbolta næsta mánuðinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×