Handbolti

Guðmundur: Liðið er á réttri leið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór Atlason fær hér óblíðar móttökur frá varnarmönnum Dana í leik liðanna í gær.fréttablaðið/ole nielsen
Arnór Atlason fær hér óblíðar móttökur frá varnarmönnum Dana í leik liðanna í gær.fréttablaðið/ole nielsen
Íslenska karlalandsliðið stóð sig vel á æfingamóti í Danmörku um helgina. Liðið lagði Slóvena, gerði jafntefli við Pólverja og tapaði svo gegn Dönum í úrslitaleik í gær þar sem lykilmenn fengu að hvíla.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var nokkuð sáttur með helgina er Fréttablaðið heyrði í honum eftir Danaleikinn.

„Það er margt gott í þessu og annað sem þarf að laga. Það er sem betur fer hægt að laga það," sagði Guðmundur en hann var mjög ánægður með varnarleikinn í mótinu.

„Hann var að halda lengstum mjög vel og við vorum að skora mikið úr hraðaupphlaupum. Sóknarleikurinn fór batnandi með hverjum leik og var virkilega góður í Danaleiknum. Við erum að gera okkur seka um of marga tæknifeila og svo erum við að fá á okkur óþarfa tveggja mínútna brottvísanir. Það kostar mikið í stórum leikjum," sagði Guðmundur en Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsson stóðu vaktina fyrir miðri vörn megnið af fyrstu tveimur leikjunum en Ingimundur fékk svo að hvíla í gær þar sem hann er ekki alveg heill heilsu.

Vignir Svavarsson leysti hann af hólmi í gær og stóð sig vel að sögn Guðmundur.

Ingimundur var ekki einn um að hvíla í gær því Guðjón Valur Sigurðsson fékk líka að hvíla þar sem hann er með „tak" í lærinu að sögn þjálfarans. Guðmundur vildi því ekki taka neina áhættur með þá sem og Alexander Petersson sem hvíldi lengstum. „Hann er þreyttur," sagði Guðmundur.

Guðjón, Alexander og Arnór Atlason, sem er með brjósklos, fá nú að hvíla fram á miðvikudag.

Þeir Aron Pálmarsson og Arnór skiptu með sér miðju- og skyttustöðunni um helgina. „Þeir gerðu það ágætlega. Við þurfum samt að fá meira frá Aroni sem og Alexander."

Þjálfarinn segir að frammistaðan um helgina hafi verið fín og staðið undir hans væntingum.

„Ég var í rauninni bara óánægður með einn hálfleik af sex. Það var fyrri hálfleikur gegn Póllandi. Vörnin er að standa heilt yfir vel en markvarslan hefði mátt vera betri. Hún var ekkert sérstök en ekki léleg heldur. Þeir félagar í markinu eiga meira inni samt. Ég er því bærilega sáttur með þessa helgi en við verðum að nýta vikuna vel til þess að laga það sem þarf fyrir EM."

Strákarnir koma nú heim, æfa vel og spila svo æfingaleik gegn Finnum á föstudag áður en þeir fara til Serbíu á laugardag.

„Það er sitt lítið af hverju sem við þurfum að laga í þessari viku. Ég er samt þokkalega sáttur við hvar liðið er statt eftir þessa helgi. Maður veit samt aldrei fyrr en út í mótið er komið. Við erum að bæta okkur en betur má ef duga skal."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×